Njarðvík vann Val í 22. umferð Dominos deildar kvenna í dag. Liðin eru í fimmta og sjötta sæti deildarinnar og því mátti búast við hörkuleik í Njarðvík. 

 

Gangur leiksins

Valskonur voru sterkari framan af leik og virtust vera með stemmninguna í lagi og tilbúnari í slaginn. Þeim mistókst algjörlega að halda það út og þá sérlega frábærum varnarleik sem var einungis á boðstólnum í upphafi leiks hjá þeim rauðklæddu. 

 

Góður endasprettur Njarðvíkur í fyrri hálfleik kom þeim á sporið því þær unnu þriðja leikhluta 23-16 og komust í góða forystu fyrir síðasta fjórðunginn. Valur náði að minnka muninn í minnst fjögur stig í fjórða leikhluta en Njarðvík átti svör við öllum þeirra aðgerðum og náðu að lokum að tryggja sér 84-74 sigur. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Njarðvík fékk 28 stig af bekknum sínum í leiknum en Valur eingöngu 11 stig. Þar liggur helsti munur liðanna en auk þess er þriggja stiga nýting Njarðvíkur mun betri en valsarar hittu gríðarlega illa fyrir utan þriggja stiga línuna. 

 

Hetjan

Óhætt er að segja að liðsheild Njarðvíkur hafi loksins innsiglað sigur fyrir liðið. Erfitt er að ganga framhjá Carmen Tyson-Thomas sem gat sótt stig þegar liðinu vantaði. Hún endaði með 34 stig og 18 fráköst í leiknum. Helst munaði um framlag Karenar Daggar í leiknum en hun endaði með 14 stig og er með 18 í +/- tölfræðinni. Ína María og Björg voru einnig mjög sterkar í dag auk þess sem allir leikmenn liðsins voru tilbúnir að leggja sig fram í dag. 

Kjarninn

Njarðvík náði með sigrinum Val að stigum í deildinni en Valsarar eru ofar í töflunni vegna þess að þær eiga innbyrgðsviðureignina á Njarðvík. Líkleg var frammistaða Njarðvíkur í dag ein af þeim bestu sem liðið hefur sýnt í vetur. Allir leikmenn liðsins gáfu sig alla í leikinn og sóknarflæði leiksins var mun betra en sést hefur hjá liðinu. Njarðvík á þennan sigur fullkomlega skilið og gaman að sjá íslensku leikmenn liðsins svara kalli Agnars um að stíga upp og ljóst er að þær eru að taka miklum framförum þessa dagana. 

 

Valsarar virtust klárar í slaginn og var jákvæð ára yfir liðinu í upphafi leiks. Það hinsvegar fjaraði út með leiknum er liðið og þjálfari liðsins fóru að ergja sig útí dómara. Við það hvarf gleðin og stemmningin í liðinu algjörlega. Mia Lloyd og Bergþóra Holton voru sterkastar hjá Val en líkt og áður þá vantar framlag frá lykilmönnum liðsins. Þegar allir leikmenn Val spila að fullri getu eru fá lið sem geta staðist þeim snúninginn en það hefur hreinlega gerst í alltof fá skipti á þessu tímabili. 

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn leiksins

 

Viðtal við Agnar Már Gunnarsson þjálfara Njarðvíkur eftir leik 

 

Umfjöllun og myndir / Ólafur Þór Jónsson