ÍA og Hamar mættust á Akranesi í kvöld í mikilvægum leik í baráttunni um 5. sæti deildarinnar.  Liðin höfðu mæst tvisvar sinnum í deildinni til þessa og unnið sinn útileikinn hvort.  Liðin voru ekkert að breyta út frá þeim vana og fór svo að Hamarsmenn unnu virkilega auðveldan sigur, skoruðu 97 stig gegn 56 stigum ÍA.

 

Leikurinn í hnotskur

 

Skagamenn komust einhvern vegin aldrei í gang í kvöld og vantaði allt flæði í sóknarleik þeirra og varnarleikurinn var taktlaus.  Gestirnir úr Hveragerði gengu á lagið, hittu virkilega vel spiluðu nógu góða vörn til að halda ÍA undir 60 stigum í leiknum en skotnýting ÍA var ekki upp á neina fiska.

 

Maðurinn

 

Línurnar voru lagðar strax í upphafi leiksins hjá Erni Sigurðarsyni, setti 3 þrista og bætti við tvist og var kominn með 11 stig eftir fjórar sóknir.  Þrátt fyrir að spila einungis um 25 mínútur í leiknum skilaði hann 26 stigum með skotnýtingu upp á 10 af 12 í 2ja og 3ja stiga og 4 af 4 vítum fóru ofan í.  Til viðbótar var hann með 8 fráköst og 3 stoðsendingar.  Niðurstaðan framlag upp á 35.

 

Leikurinn í tölum

 

Hamarsmenn voru yfir í nánast öllum tölfræðiþáttum leiksins enda sigurinn stór.  Upplýsingar um tölfræði leiksins má finna hér

 

Staðan í fyrstu deild karla

 

Texti: HGH

Mynd: Jónas H. Ottósson