Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Snæfelli í Domino’s deild karla. Hlutskipti liðanna framan af vetri hefur verið misjafnt, en Stjörnumenn voru fyrir leikinn í öðru sæti, á meðan Hólmarar vermdu botninn án stiga. Stjörnumenn voru án þeirra Justin Shouse og Tómasar Heiðars Tómassonar, en báðir eru frá vegna meiðsla. Snæfellingum tókst að halda sér inni í leiknum fyrstu þrjá leikhlutana, með fínni spilamennsku og flottri baráttu. Stjörnumenn virkuðu nokkuð flatir í, en þegar á reyndi stigu lykilmenn Garðbæinga upp og skiluðu tveimur stigum í hús, með góðum 101-77 sigri.

 

Seinkun en engin ferðaþreyta

Leiknum seinkaði um 30 mínútur, en rúta Snæfellsliðsins bilaði á miðri leið og þurftu Hólmarar því að skipta um rútu. Það var hins vegar ekki að sjá á liðinu að í því sæti einhver ferðaþreyta, en Snæfellingar komust vel frá leiknum þrátt fyrir tap og geta borið höfuðið hátt. Þrír leikmenn Hólmara skoruðu meira en 10 stig, en þeirra stigahæstur var hinn ungi Árni Elmar Hrafnsson, sem skoraði 24, í öllum regnbogans litum. Þegar allt kom til alls reyndust Garðbæingar hins vegar of sterkir fyrir gestina, en fram að lokafjórðungnum höfðu Snæfellingar hangið vel aftan í þeim, ekki vegna þess að Stjarnan spilaði neitt sérstaklega illa, heldur vegna þess að gestirnir spiluðu vel.

 

Hetjan

Erfitt er að taka út einhvern einstakling í liði heimamanna, enda dreifðist stigaskorunin vel og allir komust ágætlega frá sínum hlutverkum. Arnþór Freyr Guðmundsson var þeirra stigahæstur með 25 stig, þar af 6 þrista, og þá skoraði Marvin Valdimarsson 17 stig á einungis rúmlega 17 mínútum. Hins vegar voru fimm Stjörnumenn með meira en 10 stig í leiknum, svo hetja leiksins var líklega Stjörnuliðið í heild sinni.

 

Tölfræðin

Hlynur Bæringsson var með glæsilega tölfræðilínu gegn sínu gamla félagi, en Hlynur skoraði 16 stig, tók 14 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og varði 4 skot. Það gera 36 framlagspunkta.

 

Framhaldið

Eftir leikinn sitja Stjörnumenn á toppi deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, en KR-ingar geta endurheimt toppsætið með sigri gegn Þór Þorlákshöfn annað kvöld. Hólmarar sitja hins vegar enn á botninum án stiga. Næsti leikur Stjörnumanna er heimaleikur gegn Þór Þorlákshöfn þann 16. febrúar næstkomandi, en næsti leikur Snæfellinga er sama dag gegn Tindastóli.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtal / Elías Karl Guðmundsson

Myndir / Tomasz Kolodziejski

 

Viðtal: