Stuðningsmannahópur ÍR hefur heldur betur litað Dominos deild karla síðustu misserin en Hertz hellirnir hefur verið óvinnandi vígi síðan 17. nóvember. Þá tapaði ÍR sínum þriðja heimasigri í röð en síðan hefur liðið unnið sex heimaleiki í röð. 

 

Það eru þeir Guðbrandur Daníelsson, Brynjar Már Bjarnason og Steinar Þór sem hafa haldið hópnum saman samkvæmt heimildum Karfan.is. Þeir sem hafa mætt í Seljaskóla á síðustu leiki vita að lætin eru gríðarleg og stuðningurinn ótrúlegur. Þeir kalla sig Ghetto Hooligans og hafa heldur betur slegið í gegn. 

 

Karfan.is heyrði hljóðið í Guðbrandi „Bóbó“ Daníelssyni forsprakka Ghetto Hooligans og spurðist fyrir um hvað væri í gangi í Breiðholtinu. 

 

Hópurinn er settur saman af ÍR-ingum sem eru aldir upp í breiðholtinu og vilja gera allt fyrir klúbbinn til að vinna. Það eru strákar frá 28 aldri niðrí þá sem eru enn að æfa í 9 flokk. Eina skilyrði sem þú þarft að uppfylla til að vera með okkur er einfalt og það er að vera ÍR-ingur.“ sagði Bóbó og bætti við:

 

 

„Ghetto hooligans hafa verið sterkir seinustu ár með liðinu í þessari svokölluðu „meðalmennsku“ en aldrei jafn sterkir og nú og held ég að gott gengi á heimavellinum sé að þakka hversu margir við erum á leikjum og hversu mikil læti eru.“ 

 

Líkt og fyrr kom fram hefur ÍR nú unnið sex leiki í röð en Hertz hellirinn hefur ekki verið þetta vígi síðustu tímabil. Til samanburðar vann ÍR einungis fjóra leiki á heimavelli á öllu síðasta tímabili og fimm þar á undan. Metnaðurinn er gríðarlegur og eru til dæmi um að einstaklingar í hópnum taki sér frí úr vinnu eða fari fyrr á leikdögum. Bóbó tók undir þetta og sagði menn mæta snemma í Seljaskóla fyrir leiki. 

 

„Menn taka til í betri stofuni okkar, koma mjólkinni í kælingu og undirbúa fyrir leikinn. Við gætum þetta ekki ef félagið myndi ekki vera með okkur í þessu, Þeir leyfa okkur að vera með okkar herbergi þar sem við byrjum að syngja og hafa gaman einnig hleypa þeir mönnum Ghetto hooligans frítt inná heimaleiki.“ 

 

Eftir fimm ára eyðimerkurgöngu ÍR í úrslitakeppninni er liðið í góðri stöðu að komast í hana í ár þegar þrjár umferðir eru eftir. Bóbó sagði það enda spurningu um að sínir menn yrðu þar á meðal, frábað allt tal um annað og talaði bara um „þegar“ það gerist. 

 

„Þegar úrslitakeppnin byrjar hjá okkur þá býst ég sterklega við því að mæting eykst og ég lofa þér því að hávaðinn verður meiri fleiri söngvar og meiri stemmning alveg klárt. Svona á þetta vera í breiðholtinu, það er bara eintóm veisla í kringum félagið í dag.“ 

 

Sveinbjörn Claessen fyrirliði ÍR sagði eftir sigur á dögunum gegn Haukum að stuðningsmennirnir væru sjötti maðurinn í liðinu:„Stuðningsmennirnir eiga bara heiður skilinn, ótrúlega flottir, eru sjötti maðurinn og það smitast til okkar í liðinu. Það er bara ótrúlega gaman að spila hérna.“ 

 

En eftir þetta tímabil, er einhver séns í augum Guðbrands að Ghetto Hooligans geti lagst í dvala aftur?Ef sami mannskapur helst í liðinu þá sjáum við ekkert annað en að halda áfram að mæta og vera með læti og dólg“

 

Myndband af fagnaðarlátum Ghetto Hooligans eftir sigur á Þór Ak í síðustu umferð er hér að neðan. Þeir félagar hafa heldur betur sett lit á deildina og heyrist af körfuboltaáhugamönnum ótengdum ÍR sem dreymir um að mæta á leiki í Seljaskóla. 

 

 

 

Myndir / Bára Dröfn