Kristófer Acox landaði tvennu í kvöld þegar Furman vann sjötta leik sinn í röð í bandaríska háskólaboltanum. Furman gerði þá góðaferð til Charleston með 91-99 útisigri gegn The Citadel skólanum.

Kristófer gerði 19 stig, tók 11 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og varði 2 skot á 26 mínútum í leiknum. Devin Sibley var stigahæstur hjá Furman með 32 stig. Í riðlakeppni SoCon er Kristófer næstum að ná tvennu að jafnaði í leik með 15,4 stig og 8,4 fráköst.

Með sigrinum er Furman í 1.-2. sæti í CoCon riðlinum með 8 sigra og 2 tapleiki rétt eins og ETSU skólinn. Næsti leikur Furman er gegn gamla Íslendingaliðinu Chattanooga þann 9. febrúar næstkomandi. En eins og áður hefur komið fram hafa báðir bræðurnir Finnur og Helgi Magnússynir leikið með Chattanooga svo skólinn getur vel borið sæmdarheitin Íslendinga- og KR-skóli.