Keflavík er Maltbikarmeistari kvenna 2017 eftir æsispennandi 65-62 sigur á Skallagrím í úrslitaviðureign liðanna í Laugardalshöll. Þetta er í fjórtánda sinn sem Keflavík verður bikarmeistari kvenna en liðið varð bikarmeistari síðast árið 2013. Ariana Moorer var valin besti maður leiksins með 26 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar. Keflavík leiddi allan leikinn en Skallagrímur náði að jafna í fjórða leikhluta en meira varð það ekki, Keflavík hélt haus þegar mest á reyndi og nokkuð ljóst að það verður fagnað í Keflavík í kvöld.

Þjálfarinn Sverrir Þór Sverrisson sannar enn eina ferðina gildi sitt en hann þjálfar varla lið án þess að titill fari á loft! Sverrir hefur gert gríðarlega sterkt lið úr ungum efnivið í Keflavík og sérstaklega gaman að sjá leikmann á borð við Ernu Hákonardóttur ganga eiginlega í gegnum endurnýjun lífdaga sem leikmaður en hún sem fyrirliði Keflavíkurliðsins sendi nýja Maltbikarinn á loft í Laugardalshöll í dag. Erna gerði 12 stig í leiknum, öll úr þriggja stiga skotum og flestir þristarnir voru þannig gerðir að halda Skallagrím í skefjum þegar þær voru farnar að anda ofan í hálsmál Keflvíkinga.

Keflvíkingar mættu vel gíraðir til leiks. Vörn allan völl og Ariana Moorer gerði fyrstu 11 stig liðsins en Skallagrímur tók leikhlé í stöðunni 11-2 eftir þriggja mínútna leik! Fyrstu stig Skallagríms í úrslitum kvennabikarsins gerði heimasætan Guðrún Ámundadóttir eftir stoðsendingu frá systur sinni Sigrúnu.

Keflvíkingar áttu þó fyrsta leikhluta skuldlausan þar sem Moorer gerði 17 stig á fyrstu 10 mínútum leiksins. Tillman gekk hvorki né rak með Moorer svo Borgnesingar kölluðu til Kristrúnu Sigurjónsdóttur og hún byrjaði á því að stela boltanum af Moorter. Erna Hákonardóttir setti svo góðan þrist 18-7 og Keflvíkingar leiddu 22-14 að loknum fyrsta leikhluta.

Fanney Lind opnaði annan leikhluta með tveimur þristum fyrir Skallagrím og minnkaði muninn í 22-20 en Keflvíkingar voru ekkert á því að láta forystuna af hendi. Ariana Moorer lét lítið fyrir sér fara í öðrum leikhluta en flottar innkomur hjá Kötlu og Írenu hjálpuðu til og þá var Birna Valgerður að taka flotta spretti.

Keflvíkingar fóru með 37-34 forystu inn í síðari hálfleik. Ariana Moorer var með 17 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar hjá Keflavík í hálfleik og Birna Valgerður Benónýsdóttir 7 stig og 6 fráköst. Hjá Skallagrím var Tillman atkvæðamest í fyrri hálfleik með 12 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 7 stig og 5 fráköst.

Þristarnir flugu í upphafi þriðja leikhluta en svo nýttu Skallagrímskonur sér mishæðina milli Ernu og Sigrúnar og Sigrún setti nokkur góð stig í Keflavíkurteignum. Suðurnesjakonur voru þó ekkert á því að láta forystuna af hendi, lentu nokkrum sinnum í basli með svæðisvörn Borgnesinga en tvö öflug sóknarfráköst á lokamínútu þriðja leikhluta tryggði Keflavík 52-46 forystu fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Borgnesingar áttu stóran afleik í þriðja leikhluta þegar Kristrún Sigurjónsdóttir fékk sína fjórðu villu. Hún hélt þá á bekkinn en kom aftur skömmu síðar inn á völlinn í þriðja hluta og fékk sína fimmtu villu og þar með útilokun frá leiknum. Rándýr ákvörðun hjá þjálfranum Manuel Rodríguez.

Í fjórða leikhluta var stóra spurningin áfram…getur Skallagrímur jafnað? Erna hélt Keflavík fjarri með þrist 57-52 og Borgnesingar létu sér ekki segjast, minnkuðu muninn í 62-59 og jöfnuðu svo leikinn 62-62 þegar Tillman fékk körfu og villu að auki og mínúta eftir af leiknum!

Næsta Borgarnessókn var vondur þristur frá Tillman sem var aldrei líklegur og Keflavík fór yfir þar sem brotið var á Moore og setti hún bæði vítin með 25 sekúndur eftir af leiknum og ljóst að henni var létt því stóru vítin hafa verið stopul hjá henni á vertíðinni, ekki núna!

Borgnesingar fóru yfir og létu verja frá sér skot með 16 sekúndur eftir, næsta sókn var látin renna út klukkuna og Tillman freistaði þess að skora í teignum við erfiðar aðstæður en Keflavík náði frákastinu og brotið var á Moore. Hér þustu leikmenn Keflavíkur af bekknum og inn á völlinn með 0,3 sekúndur eftir af leiknum.

Samkvæmt ítrustu reglum er það tæknivíti að bekkjarleikmennirnir fari á völlinn áður en leiktíminn er úti og Manuel þjálfari Skallagríms benti á þá staðreynd en dómarar leiksins voru ekki á þeim buxunum að láta þetta verða afgerandi þátt í annars frábærum leik. Þar af leiðandi var þessi skiljanlegi æsingur Keflvíkinga á bekknum úr sögunni, Moorer fór yfir þar sem brotið var á henni og setti fyrra vítið og brenndi viljandi af því síðara og þessi þrjú sekúndubrot sem eftir stóðu hurfu í sandinn og Keflavík fagnaði 65-62 sigri í mögnuðum slag!

Ariana Moorer, besti maður leiksins, var með 26 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar. Erna Hákonardóttir bætti við 12 stigum öll úr þristum og þá var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 11 stig og 7 fráköst. Tavelyn Tillman var með 26 stig hjá Skallagrím, 7 fráköst og 6 stoðsendingar og þá bætti Sigrún Ámundadóttir við 13 stigum og 11 fráköstum og Fanney Lind Thomas kom með 11 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar af bekknum hjá Skallagrím.

Tölfræði leiksins

Fögnuður Keflavíkur var ósvikinn

Byrjunarliðin:

Keflavík: Adriana Moorer, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Erna Hákonardóttir.

Skallagrímur: Guðrún Ósk Ámundadóttir, Ragnheiður Benónýsdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Tavelyn Tillman.

Áhorfendur: 1288