Nýr erlendur leikmaður Hauka, Cedrick Bowen, mun leika sinn fyrsta leik fyrir Hafnarfjarðarfélagið í kvöld gegn ÍR í Breiðholti. Leikmanninum, sem áður var á mála hjá KR, er samkvæmt þjálfara liðsins ætlað að koma inn í lið Hauka sem erlendur leikmaður númer 2 og þá aðallega til þess að minnka álagið á þeim Finn Atla Magnússyni og Sherrod Wright, en þeir eru báðir að spila yfir 35 mínútur að meðaltali það sem af er ári. Tölfræði Cedrick í þeim leikjum sem að hann spilaði fyrr á tímabilinu fyrir KR alls ekki slæm, 13 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar á um tuttugu mínútum að meðaltali í leik. Því verður áhugavert að sjá hverskonar framlag hann kemur til með að skila til Hauka, sem fyrir leikinn eru í 10. sæti deildarinnar, 2 stigum frá sæti í úrslitakeppninni.

 

Frekari gleðifregnir fyrir Hafnfirðinga eru þær að Kristján Leifur Sverrisson sé kominn aftur á ról og verði með þeim í kvöld, en hann lék síðast fyrir félagið þann 1. desember síðastliðinn. Að sögn þjálfara liðsins, Ívars Ásgrímssonar, verður þó ekki farið of geyst af stað með Kristján og að hann fái aðeins nokkrar mínútur í einu til þess að byrja með. Áður en að Kristján meiddist aftur í desember var hann að skila 10 stigum og 6 fráköstum að meðaltali í leik.