Fyrrum erlendur leikmaður KR, Cedrick Bowen, er kominn til Hauka í Hafnarfirði. Cedrick, sem KR sendi frá sér rétt áður en að leikmannaglugginn lokaði er kominn aftur til landsins, til æfinga hjá Haukum og hafa KR, samkvæmt heimildum, kvittað fyrir félagaskiptum hans yfir til Hauka. Þrátt fyrir að hafa skilað 13 stigum, 7 fráköstum og 2 stoðsendingum á 21 mínútu að meðaltali í leik fyrir KR, þótti hann ekki standa sig nógu vel þar.

 

Að sögn Ívars Ásgrímssonar, þjálfara liðsins, eru þeir að taka Cedrick inn sem erlendan leikmann númer 2 og þá aðallega til þess að gefa lykilleikmönnum sínum, þeim Finn Atla Magnússyni og Sherrod Wright meiri hvíld, en til þessa hafa þeir verið að spila yfir 35 mínútur að meðaltali í leik. Einnig segir Ívar hlutverkaskiptinguna skýra hjá liðinu og að Cedrick viti og sé sáttur við það að vera að koma inn í þetta hlutverk, að spila kannski ekki nema 10-15 mínútur í leik.

 

Cedrick verður ekki í hóp liðsins sem að tekur á móti Þór frá Akureyri nú í kvöld, en gert er ráð fyrir að hann muni leika sinn fyrsta leik fyrir Hauka eftir bikarhléið, gegn ÍR í Hertz Hellinum þann 16. næstkomandi.

 

Enn frekar segir Ívar liðið hafa verið í vandræðum með meiðsl lykilleikmanna í vetur. Þar sem að leikstjórnandi þeirra, Emil Barja, hefur verið að stríða við meiðsl, sem og Kristján Leifur Sverrisson, sem var áður en hann meiddist aftur, einn sterkasti stóri íslenski leikmaður deildarinnar. Gerir Ívar sér vonir um að Kristján verði kominn aftur í búning fyrir leik liðsins gegn ÍR þann 16. næstkomandi, en þó er gert ráð fyrir að eitthvað þurfi að fylgjast með mínútum hans til að byrja með og talið ólíklegt að hann spili meira en 10-15 mínútur í þessum fyrstu leikjum.

 

Ljóst er að á brattann er að sækja fyrir Hafnarfjarðarliðið, sem er sem stendur í fallsæti (11.sæti) með 10 stig. Deildin þó einkar jöfn þetta árið, aðeins 4 stiga (2 sigurleikir) bil fyrir liðið að vinna upp til að komast inn í úrslitakeppnina.  Spennandi verður að sjá hvað þeir geta gert með Cedrick Bowen og Sherrod Wright sem erlenda leikmenn liðsins á þessum lokametrum deildarkeppninnar. Að sögn Ívars fara menn í Hafnarfirði bjartsýnir með þennan sterka og öfluga hóp inn í lokaumferðirnar þó að staða liðsins sé ekki nógu góð.