Fyrir leik Þórs og Breiðabliks sem fram fór í 1. Deild kvenna í körfubolta í dag mátti búast við jöfnum og spennandi leik enda tvö áþekk lið. Fyrir leikinn höfðu liðin mæst í þrígang og hafði Þór haft betur í tveimur þeirra en Breiðablik í einum. Þessi lið eiga i harðri baráttu um að tryggja sér efsta sætið í deildinni sem gefur heimaleikja réttinn í úrslitakeppninni um laust sæti í efstu deild.

 

Og ljóst var að taugar leikmanna beggja liða hafi verið þandar til hins ýtrasta og þegar upp var staðið hafi gestirnir höndlað pressuna betur en Þórsstúlkur.

 

Um miðjan fyrsta leikhluta hafði Þór náð sjö stiga forskoti og virtust vera búnar að finna fjölina sína. Þá tóku gestirnir við sér og náðu að jafna leikinn í 12-12 þegar þrjár mínútur lifðu leikhlutans. Þór komst svo í 20-18 en Blikar skoruðu þá 0-5 og leiddu með þrem stigum eftir fyrsta fjórðung 20-23.

 

Annar leikhlutinn einkenndist af miklu óðagoti þar sem bæði lið gerðu fjölmörg mistök og áttu erfitt með að skora. Fór svo að Þór vann leikhlutann með einu stigi 12-11 og gestirnir leiddu í hálfleik 32-34.

 

Breiðablik var svo ávallt skrefinu á undan Þór í þriðja leikhluta og náði mest 8 stiga forskoti 36-44 um miðja leikhlutann. Gestirnir unnu fjórðunginn 12-15 og leiddu með fimm stigum þegar lokakaflinn hófst 44-49.

 

Þórsarar byrjuðu fjórða leikhlutann ágætlega og náðu að minnka muninn í tvö stig 51-53 en nær komust þær ekki. Blikar bættu þá í og kláruðu fjórðunginn með 19-21 og öruggur 7 stiga sigur staðreynd 63-70.

 

 

Leikur beggja liða einkenndist eins og áður segir af fjölmörgum mistökum m.a. í töpuðum boltum og misnotuðum vítum þar höfðu Þórsstúlkur vinninginn. Sem dæmi um tapaða bolta voru þeir 18 hjá Þór gegn 11 gestanna og í vítum hittu Þórsstúlkur úr 5 af 13 eða 38% en gestirnir 12 af 18 eða 67%. Í leik eins og í dag reyndist það dýrkeypt.

 

Einnig var alveg ljóst að Erna Rún Magnúsdóttir fyrirliði Þórs gekk ekki alveg heil til skógar enda draghölt lengst af í leiknum en af þessum sökum hefur hennar framlag oftast verið meira en í dag. 

 

Þær Heiða Hlín Björnsdóttir og Rut Herner Konráðsdóttir öflugar í liði Þórs Heiða skoraði 22 stig og tók 6 fráköst. Heiða var með 6 þrista í 13 tilraunum. Rut Herner var með 15 sig og 7 fráköst.  Unnur Lára Ásgeirsdóttir var með 9 stig 5 fráköst, Thelma Hrund Tryggvadóttir 8 stig 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Helga Rut Hallgrímsdóttir var með 5 stig og 11 fráköst og Erna Rún Magnúsdóttir 4 stig.

 

 

Hjá Breiðabliki var Sóllilja Bjarnadóttir gríðarlega öflug og skoraði 26 sig og tók 9 fráköst. Eyrún Ósk Alfreðsdóttir var með 15 stig, Auður Íris Ólafsdóttir 11 stig og 12 fráköst, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 7 stig og 7 fráköst, Arndís Þóra Þórisdóttir 4 stig og Hafrún Erna Haraldsdóttir 1 stig.

 

Eftir leik dagsins er Þór enn sem fyrr á toppi deildarinnar með 14 stig líkt og Breiðablik en Þór á leik til góða.

 

Myndasafn leiksins

 

 

Myndir og umfjöllun / Palli Jóh – Thorsport.is