Tindastóll náði að svara fyrir tap í síðustu umferð Dominos deildarinnar með því að leggja Keflavík í kvöld á heimavelli í Síkinu.

 

Það var ljóst frá byrjun að Keflvíkingar voru ekki komnir til Sauðárkróks til að leggjast í grasið fyrir heimamönnum baráttulaust.  Þeir tóku vel á móti öllu því sem Tindastóll fleygði í þá og náðu oftast að svara í sömu mynt.  Það er reyndar ekki hægt að segja að heimamenn hafi byrjað leikinn vel því eftir áður en fyrsti leikhluti var búinn var Antonio Hester kominn með 3 villur og gestirnir úr Keflavík komnir með 7 stiga forystu 17:24.  Tindastóll náði að laga stöðuna aðeins með góðri síðustu sókn þegar fyrirliðinn lagði boltann niður.  Annan leikhlutann spilaði Hester ekki eina einustu mínútu en þrátt fyrir það náðu heimamenn að jafna leikinn aftur og munaði mikið um góða innkomu Helga Margeirs sem skoraði 5 fyrstu stig fjórðungsins og var að spila félaga sína uppi.  Jafnt var á nánast öllum tölum og þegar hálfleiksflautan gall voru gestirnir 3 stigum yfir eftir fantaþrist frá Reggie Dupree úr horninu.

 

Það var áfram stál í stál í seinni hálfleik, hvorugt liðið náði að rykkja nema 3-4 stig frá hinu, fyrr en um ein og hálf mínúta var liðin af lokaleikhlutanum að Amil Stevens fékk dæmda á sig fimmtu villuna og tók ekki meiri þátt í leiknum.  Stólar náðu 10 stiga forskoti fljótlega og Gummi Jóns fauk útaf með 5 villur þegar um 5 mínútur voru eftir og eftir það var þetta eiginlega ekki spurning þótt slæm hittni heimamanna á lokamínútunum hafi hleypt óþarfa spennu í leikinn.  En það gerði þó ekki mikið til því gestirnir voru ekki að ná góðum skotum gegn góðri vörn Tindastóls.

 

Antonio Hester var stigahæstur heimamanna með 20 stig, Björgvin Hafþór með 17 og þá átti Viðar Ágústsson stórfínan leik með 14 stig og spilaði fantavörn á Hörð Axel allan leikinn.  Helgi Freyr átti góða innkomu og Pétur var að dreifa boltanum ágætlega þó hann hafi ekki verið að skora mikið.  Hjá gestunum var Amin Stevens atkvæðamestur með 20 stig og Magnús Már átti fínan leik með 18 stig.  Haxel skilaði 14 stigum, 6 stoðsendingum og 7 fráköstum og Reggie átti nokkra spretti en Gummi Jóns var eiginlega ekki með í kvöld, setti einungis 3 stig og virtist ekki með hugann við verkið.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

 

Viðtöl: