Skallagrímur sigraði Hauka, 55-61, í 19. umferð Dominos deildar kvenna. Eftir leikinn er Skallagrímur, sem nú hefur unnið átta leiki í röð, enn eitt í efsta sæti deildarinnar, einum sigurleik á undan Snæfell og Keflavík í 2.-3. sætinu. Haukar eru áfram í 7. sæti deildarinnar, 2 sigurleikjum á undan Grindavík í 8. sætinu og 2 sigurleikjum fyrir aftan Njarðvík sem er í 6. sætinu.

 

Kjarninn

Reynsla Skallagrímskvenna var einfaldlega einu númeri of stór í kvöld fyrir annars sprækt lið Hauka. Áttundi sigurleikur toppliðsins í röð í deildinni segir alveg helling um hversu mikil gæði og stöðugleiki eru til staðar hjá Skallagrím. Að sama skapi er allt annað að sjá til liðs Hauka eftir að bæði Þóra Kristín Jónsdóttir kom aftur úr meiðslum og þær réðu Nashika Williams til starfa. Líkt og í síðasta leik þeirra (gegn Keflavík) voru þær vel inni í leiknum alveg til loka og hefðu með smá lukku getað farið með sigur af hólmi.

 

 

Þáttaskil

Viðureign liðanna í kvöld var að mestu jöfn og spennandi.  Í tólf skipti í fyrstu þremur leikhlutum leiksins skiptust liðin á að hafa forystuna. Fyrir lokaleikhlutann voru gestirnir úr Borgarfirði yfir, 40-45 og allt útlit fyrir áhugaverðar lokamínútur. Skallagrímur byrjar þá á 11-3 áhlaupi og forysta þeirra því komin í 11 stig, 43-56 þegar um 6 mínútur eru eftir af leiknum. Þennan mun náðu heimastúlkur ekki að vinna niður það sem eftir lifði leiks.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Skallagrímur fékk 8 stig af bekknum á meðan að heimastúlkur voru stigalausar þaðan, sem er kannski ekki skrýtið þegar að þær sem að komu inn á fyrir Hauka tóku samanlagt aðeins eitt skot.

 

Hetjan

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var góð fyrir gestina í kvöld. Á rúmum 30 mínútum spiluðum skoraði hún 10 stig, tók 14 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og stal 3 boltum.

 

Tölfræði leiks