Ægir Þór Steinarsson átti fínan leik fyrir San Pablo Miraflores Burgos er liðið tapaði gegn Coruna 86-89 í miklum spennuleik þar sem Coruna vann leikinn á lokasprettinum. Ægir endaði með 5 stig, 8 stoðsendingar og 2 fráköst á 23 stigum. 

 

Karfan.is náði tali á Ægi í morgun eftir tapið og sagðist hann vera svekktur með tapið enn bjartsýnn á framhaldið:

 

„Þessi leikur var bara jafn leikur á móti góðu liði. En skammarlegt að tapa á heimavelli í jöfnum leik og sérstaklega í leik sem á að tryggja okkur efsta sætið. Vorum klaufar að klára þetta ekki þannig við áttum skilið að tapa. Staðan í deildinni er jöfn í efri hlutanum.“ sagði Ægir um leikinn í gær.

 

Burgos var fyrir leikinn í efsta sæti deildarinnar með tveim öðrum liðum og Coruna var í áttunda sæti deildarinnar fyrir leikinn. Ægir og félagar gátu því komið sér enn betur fyrir í efstu sætunum. Burgos hefur tapað fjórum af síðustu sjö leikjum eftir að hafa unnið átta leiki í röð þar á undan. 

 

„Við höfum ekki verið að spila vel í síðustu tveim leikjum og það er ekki boði á þessum tíma árs þegar mikið er undir. Við verðum aldeilis að fara að gyrða okkur ef við ætlum að taka efsta sætið. Það eru 9 leikir og það er undir okkur komið að klára þetta.“ sagði Ægir svo að lokum.

 

Eftir viku mætir Burgos liðinu í næstneðsta sæti Marin og ljóst á orðum Ægis að það sé algjör skyldusigur ætli liðið sér að enda í efsta sæti deildarinnar. Ægir er stoðsendingahæstur í liði Burgos með 3,8 stoðsendingarnar að meðaltali í leik. 

 

Mynd / Cbmiraflores.com/