Borgnesingar mættu í Hertz-hellinn í kvöld og börðust um 8 stig eins og þjálfari Skalla myndi orða það. Andstæðingarnir, heimamenn í ÍR, hafa verið á ágætu skriði, einkum á heimavelli, á meðan gestirnir hafa meira verið að safna framlengingum en stigum að undanförnu. Liðin sitja bæði í 8-10. sæti deildarinnar ásamt Njarðvikingum með 12 stig. Búast mátti við harðri baráttu um öll stigin í kvöld. 

 

Þáttaskil:

Eftir jafnan fyrsta leikhluta tóku heimamenn á ógurlegan sprett og settu 16 stig gegn tveimur gestanna. Þar fóru fremstir í flokki Matthías Orri og Trausti nokkur Eiríksson. Staðan eftir þá holskeflu 34-18 og lánleysi piltanna frá höfuðstað Vesturlands virtist algert. Kristófer Gíslason kom þá Sköllum til bjargar og reif gestina upp. Staðan 43-33 í hálfleik og leik ekki alveg lokið enn.

 

Flenard hefur hlotið einróma lof körfuboltaspekúlanta og ekki af ástæðulausu. Hann átti flottan þriðja leikhluta og með aðstoð Arnars komu gestirnir muninum niður í 3 stig. Vörn ÍR-inga hafði verið frábær í leiknum en missti e.t.v. einbeitinguna á þessum kafla. Heimamenn svöruðu hins vegar áhlaupi gestanna á lokamínútunum og voru 63-55 yfir fyrir lokaleikhlutann.

 

Vörn Borgnesinga hefur ekki verið nægilega öflug í vetur en í fjórða leikhluta náðu Skallar allnokkrum takti þeim megin vallarins. Þegar 5 mínútur voru eftir höfðu heimamenn aðeins sett 5 stig í leikhlutanum, staðan 68-67 og stuðningsmenn Skallagríms tóku við sér í stúkunni. Þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af leiknum áttu gestirnir innkast en Flenard átti eitthvað vantalað við dómara leiksins og fékk dæmda á sig tæknivillu. Í sókn ÍR-inga setti svo Trausti Eiríks sinn þriðja þrist í jafnmörgum skotum og kom ÍR-ingum í 73-67. Það kemur undirrituðum á óvart að Trausti, Borgnesingurinn snjalli, skuli hafa það í sér að gera sínum fyrrum félögum þennan óleik! Hann getur þó varla borið ábyrgð á því að Flenard bætti við sig óíþróttamannslegri villu í næstu sókn Skallagríms og fékk þar sína fimmtu villu. Trausti fór á vítalínuna og þær 2 mínútur sem voru eftir af leiknum á þeim tímapunkti voru býsna langt frá því að færa gestina nær sigrinum. Eftir umtalsvert af vítaskotum lauk leik með 81-74 sigri heimamanna.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki:    

ÍR-ingar fengu áberandi meira frá fleiri leikmönnum í kvöld. 5 ÍR-ingar settu 10 stig eða meira en aðeins 2 leikmenn Skallagríms. Einnig töpuðu gestirnir 20 boltum og sumum ansi klaufalega.

 

Hetjan:

Matthías Orri var mjög góður í þessum leik og virðist vera í afar góðu standi þessi dægrin. Trausti Eiríksson stal hins vegar senunni og var sínum gömlu félögum óþægur ljár í þúfu. Hann var með mest framlag ÍR-inga eða 23 og skoraði 15 stig úr örfáum skotum. Þarna sannast hið fornkveðna að vinir eru vinum verstir…

 

Skúrkurinn:

Flenard Whitfield hefur einkum verið hetja Skallagríms í vetur en að þessu sinni reyndist hann skúrkurinn eins og fram kemur að ofan. Þessar tvær síðustu villur hans gerðu klárlega vonir gestanna að engu.

 

Kjarninn: 

Skallagrímsmenn misstu þarna af mögulegum 8 stigum og önnur slík fóru norður í land í síðustu umferð. Skallar hafa komið nokkuð á óvart í vetur en betur má ef duga skal. Vörnin hefur verið ansi brokkgeng og framlag þyrfti að koma úr fleiri áttum sóknarlega.

 

ÍR-ingar halda áfram góðu gengi á heimavelli. Stemmningin í húsinu var afar góð í kvöld og varnarleikur liðsins í samræmi við það. Það er kannski í takt við lánleysi Hauka að þeir eru næsta (mögulega) fórnarlamb hellisbúa…

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn úr leiknum

 

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

 

Myndir og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson