Valskonur tóku í dag á móti Stjörnunni á Hlíðarenda í Domino’s deild kvenna. Fyrir leikinn sátu Stjörnukonur í fjórða sæti deildarinnar, en heimakonur í því sjötta, 8 stigum á eftir gestunum. Með sigri gátu Valsarar því haldið lífi í vonum sínum um sæti í úrslitakeppninni, en Stjörnukonur gátu komið sér enn lengra frá liðunum í næstu sætum fyrir neðan, Val og Njarðvík. Skemmst er frá því að segja að það voru Valskonur sem hirtu sigurinn í leik sem einkenndist fyrst og fremst af vörn, lokastaðan 72-63.
Lykillinn
Skotnýting beggja liða var með versta móti í dag, en heimakonur voru með 19% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna, gegn 16% nýtingu gestanna. Svo virtist hins vegar vera sem Valur setti sín skot niður á mikilvægum augnablikum og þá áttu gestirnir fá svör við Miu Loyd undir körfunni, en Loyd skoraði 32 stig í leiknum og tók 16 fráköst.
Hetjan
Það er erfitt að líta framhjá Miu Loyd eftir þennan leik, en eins og áður hefur komið fram skilaði hún tröllatvennu í hús, 32 stigum og 16 fráköstum. Þá fiskaði Loyd 12 villur á leikmenn gestanna og hitti úr 12 af 13 vítum sínum. Gestirnir réðu ekkert við hana í teignum og er hún vel að hetjunafnbótinni komin.
Tölfræðin
Danielle Rodriguez náði þrefaldri tvennu annan leikinn í röð, en Rodriguez skoraði 25 stig, tók 12 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Þá var hún ekki langt frá fjórfaldri tvennu, en Rodriguez varði 8 skot í leiknum.
Framhaldið
Sigurinn heldur lífi í vonum Valskvenna um sæti í úrslitakeppninni, en liðið er nú í 5. sæti með 14 stig, sex stigum á eftir Stjörnunni sem situr enn í fjórða sæti. Valskonur spila í næstu viku gegn Grindavík á útivelli á meðan Stjarnan tekur á móti Íslandsmeisturum Snæfells. Það er því enn fullt fjör í baráttunni um fjórða sætið.
Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson
Myndir / Torfi Magnússon