Tómas Þórður Hilmarsson er kominn aftur heim í Stjörnuna eftir að hafa brugðið sér af bæ í haust. Karfan.is tók hann í stutt spjall að leik loknum.

 

Velkominn aftur heim. Hvernig var úti?

Það var mjög fínt til að byrja með. Gaman á undirbúningstímabilinu en svo þegar æfingarnar byrjuðu þá fór að halla undan fæti. Það var bæði staðsetningin og körfuboltinn sem ég var ekki að fíla og þetta var bara orðið virkilega leiðinlegt. Ég er bara mjög sáttur með að vera kominn heim í Stjörnuna aftur.

 

Það er ekki ónýtt að koma til liðsins í toppsætinu og fyrir þennan leik þá virtist allt vera í blóma hjá Stjörnunni. Það hlýtur að vera gríðarleg vonbrigði að tapa þessum leik gegn liði sem er neðarlega í töflunni?

Já þetta var bara alger skita. Ég veit að Stólarnir töpuðu og KR í framlengingu gegn Sköllum svo sigur í kvöld hefði getað komið okkur enn betur fyrir á toppi deildarinnar. Við töpuðum hérna líka í fyrra – ég veit ekki hvað málið er, hvort það er völlurinn eða hvað en við litum út eins og aumingjar hérna.

 

Hvað fannst þér vera helst að klikka hjá ykkur í þessum leik?

Það er bara hugarfarið, ekkert flóknara. Við fórum á toppinn í síðasta leik og héldum kannski að við myndum haldast þar bara sjálfkrafa. 

 

Þið tapið 22 boltum eða svo í þessum leik, það er ansi mikið.

Já, það er bara 22 of mikið! En nú er bara að huga að næsta leik.

 

Mynd / Bára Dröfn

Viðtal / Kári Viðarsson