Lið Fjölnis í 1. deild karla hefur hlotið mikinn liðstyrk en miðherjinn Þorsteinn Gunnlaugsson hefur ákveðið að taka skóna fram aftur og spila fyrir liðið út tímabilið.
Þorsteinn lék með Hamri síðustu tvö tímabil og þar áður með Breiðblik í mörg ár. Hann var með 16 stig og 10 fráköst að meðaltali í leik með Hamri í fyrra. Einnig hefur hann leikið með Skallagrím og Þór Ak en hann er sterkur miðherji sem erfitt er við að eiga inní teignum.
„Þorsteinn kemur með reynslu og ákveðna hörku í teiginn og gefur okkur meiri vídd í okkar leik. Hann mun hjálpa okkur mikið í baráttunni um að komast upp meðal þeirra bestu þar sem við viljum vera.“ segir Hjalti VIlhjálmsson þjálfari Fjölnis um viðbótina.
Þorsteinn lék sinn fyrsta leik með Fjölni í gær þegar liðið mætti FSu. Hann var með 12 stig og 7 fráköst á 15 mínútum. En Fjölnir mætir einmitt Hamri í næstu umferð.