Það var ekki að sjá á Þórsliðinu að það væri að koma úr rúmlega mánaðarfríi og þaðan af síður að jólasteikin hafi haft áhrif á leik liðsins þegar Breiðablik mætti í Síðuskóla fyrr í dag.
Það voru þó gestirnir sem byrjuðu betur og komust snemma í 6-10 en lengra komst liðið ekki. Þórsstúlkur komu þá með frábæran sprett og skoruðu 11-2 og breyttu stöðunni í 17-10. Það sem eftir lifði leiks leiddi Þór með allt að 13 stigum. Þór leiddi með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta 19-14.
Þórsliðið hafði góð tök á leiknum í öðrum leikhluta og fóru þar fremstar í flokki þær stöllur Rut Herner og Unnur Lára. Þór bætti jafn og þétt í og þegar flautað var til hálfleiks leiddi Þór með 10 stigum 38-28.
Þórsarar skorðu fyrstu körfuna í síðari hálfleik og náðu þar 12 stiga forskoti en í kjölfarið tók við heldur slakur kafli hjá báðum liðum þar sem margar sendingar fóru forgörðum, slök hitni og fljótfærni sem litlu skilaði. Gestirnir gerðu þó heldur færri mistök og sigruðu leikhlutann með tveim stigum 11-13 og munurinn á liðunum 8 stig þegar fjórði leikhlutinn hófst 49-41.
Þórsliðið hafði svo heilt yfir góð tök á leiknum á lokasprettinum og náði m.a. aftur mest 12 stiga forskoti 58-46. Gestirnir reyndu allt hvað þeir gátu til að minnka muninn og þegar um mínúta lifði leiks höfðu þeir komið muninum niður í 5 stig 60-55 en nær komust gestirnir ekki. Þórsstúlkur létu ekki slá sig út af laginu og skoruðu síðustu fjögur stig leiksins og höfðu þegar upp var staðið öruggan 9 stiga sigur 64-55.
Með sigrinum í dag eru Þórsstúlkur komnar á topp fyrstu deildar með 12 stig líkt og Breiðablik og KR en Þór á leik til góða á bæði liðin.
Rut Herner Konráðsdóttir fór mikinn í liði Þórs í dag og skoraði 25 stig auk þess sem hún tók 17 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir var með 16 stig og 12 fráköst, Hrefna Ottósdóttir átti frábæra innkomu í dag og skoraði 8 stig þar af tvær þriggja stiga körfur, Heiða Hlín var með 6 stig og 6 fráköst, Erna Rún 5 stig 8 fráköst og 5 stoðsendingar og Thelma Hrund Tryggvadóttir 4 stig.
Hjá Breiðabliki var Sóllilja Bjarnadóttir stigahæst með 25 stig, Telma Lind Ásgeirsdóttir 11 stig, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 7, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 4 Auður íris Ólafsdóttir 3 og Inga Sif Sigfúsdóttir 2.
Viðtali við Rut Herner:
Myndir og umfjöllun: Palli Jóh