Skallagrímur og Þór Akureyri áttust við í nýliðaslag Dominos deildar karla í Fjósinu í kvöld. Úr varð hörkuleikur sem Þór frá Akureyri vann 100-89. Skallagrímur var inni í leiknum fram af en kastaði honum frá sér í síðari hálfleik og Þór gekk á lagið.

 

Þáttaskil

Skallagrímur mættu ákveðnir í leikinn og tóku forystuna snemma leiks en Þór náði alltaf að hanga í þeim. Staðan í hálfleik var 51-50 fyrir Skallagrím von á gríðarlega jöfnum leik. Í seinni hálfleik voru Skallagrímsmenn sjálfum sér verstir með mikið af töpuðum boltum og lélegri vörn. Þórsmenn komust mest 16 stigum yfir í 4. leikhluta og náðu Skallagrímur aldrei að komast nálægt því að jafna leikinn. Þór lék frábæra vörn og allir leikmenn liðsins stigu upp sóknarlega með Darrel Lewis fremstan í flokki.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Skallagrímur tapaði boltanum ansi oft í seinni hálfeik og var það dýrt. Skotnýtingin var aðeins betri hjá Þór og sigur þeirra öruggur. Stigahæstu menn voru Flenard hjá Skallagrím og Lewis hjá Þór báðir með 35 stig. Flenard var með flest fráköst eða 15 talsins. Einnig er áhugavert að sjá að Þór Ak leiðir leikinn með 16 stigum þegar Þröstur Leó var inná en vinnuslys vikunnar gerði honum ekki meira mein en það að hann setti stór skot ofan í og reif upp stemmninguna í liðinu.

 

Bestu menn

Bestu menn vallarins voru Flenard hjá Skallagrím og Lewis hjá Þór. Báðir skoruðu þeir 35 stig en Lewis var maður leiksins, hann var sérstaklega öflugur sóknarlega þar sem hann var prímusmótorinn. Ljóst er að rauðvínið Lewis er ekkert að slaka á en hann virtist geta búið til allt úr engu hjá liðinu. Beamon var næststigahæstur hjá Þór með 22 stig en hjá Skallagrím var Sigtryggur með 17 stig.

 

Kjarninn

Seinni hálfleikurinn fór alveg með Skallagrím og voru Þór betri aðilinn í honum. Sigur Þórs fyllilega sanngjarn og voru akureyringar betri aðilinn í leiknum þegar litið er til heildarinnar. Ellefu stiga sigur Þórs Ak þýðir einnig að liðið tekur forystu í innbyrgðis viðureignum liðanna sem gæti reynst rándýrt í lokin. Skallagrímur er í 10. sæti eftir leikinn með 12 stig en Þór í 4. sæti með 16 stig. Deildin gríðarlega jöfn og spennandi og var þetta flottur leikur í fjósinu í kvöld.

 

Tölfræði leiksins.

Myndasafn úr leiknum.

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun / Guðjón Gíslason

Myndir / Ómar Örn Ragnarsson