Þór Þorlákshöfn landaði tveimur mikilvægum stigum í kvöld með 82-85 sigri á Keflavík í TM-Höllinni. Heimamenn byrjuðu betur en Þórsarar náðu undirtökunum í öðrum leikhluta og voru mestmegnis við stýrið eftir það. Með sigrinum í kvöld hoppaði Þór upp í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en Keflavík er í 7. sæti með 12 stig.

Miðherjinn Grétar Ingi Erlendsson mætti ekki til Keflavíkur með Þórsliðinu í kvöld þar sem hann hefur verið í fangbrögðum við flensuna síðustu daga. Í fjarveru Grétars gat Amin Stevens um frjálst höfuð strokið og skoraði 12 stig fyrir Keflavík í fyrsta leikhluta og heimamenn leiddu 27-19.

Þórsvörnin tók þó viðbragð í öðrum leikhluta og tókst að halda Stevens í aðeins fjórum stigum þessar tíu mínútur. Maciej Baginski fann sig vel í öðrum leikhluta fyrir Þór, splæsti í 13 stig í leikhlutanum og þrjú síðustu voru flautuþristur sem dansaði í gegnum hringinn og netið og Þór leiddi 42-44 í leikhéi.

Amin Stevens með 16 stig og 8 fráköst en Maciej Baginski með 17 stig í liði gestanna.

Keflvíkingar opnuðu síðari hálfleik með þrist frá Guðmundi Jóns en Þórsarar hrifsuðu forystuna til sín fljótt aftur en fengu högg þegar Ólafur Helgi Jónsson fékk sína fjórðu villu. Það kom ekki að sök því hann náði að klára leikinn í kvöld. Þriðja leikhluta lokuðu Þórsarar eins og öðrum leikhluta, nú var það Emil Karel Einarsson úr horninu sem smellti í flautuþrist og Þór leiddi 59-67 fyrir fjórða leikhluta.

Tök gestanna virstust þægilega framan af fjórða leikhluta en Amin Stevens setti smá vítamín í Keflavíkurliðið með svakalegri troðslu yfir Ragnar Örn og heimamenn náðu skömmu síðar að komast yfir 75-76 þegar Magnús Már Traustason tók 7 stiga rispu. Aftur tók Þór forystuna og þegar komið var í lokastundir leiksins hófst upp vítahlaup þar sem gestirnir settu mikilvæg víti og kláruðu þannig dæmið. Lokatölur 82-85 þar sem Keflavík fékk tvö þriggja stiga skot á síðustu sekúndunum til að jafna leikinn en þau vildu ekki niður og Þórsarar fögnuðu gríðarlega mikilvægum stigum í TM-Höllinni.

Amin Stevens skartaði myndarlegri tvennu hjá Keflavík í kvöld með 31 stig, 20 fráköst og 5 stoðsendingar en eins og boltanum var dælt á hann í fyrsta leikhluta fór mun minna fyrir honum í öðrum og þriðja leikhluta. Magnús Már Traustason gerði 16 stig og tók 7 fráköst. Maciej Baginski fór fyrir sóknarleik gestanna í kvöld með 26 stig og 2 fráköst og Tobin Carberry daðraði við þrennuna með 16 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Þórsarar fengu 11 stig af bekknum í kvöld en Keflavík 5.

Tölfræði leiksins
Myndasafn úr leiknum

Umfjöllun / nonni@karfan.is
Myndir/ skuli@karfan.is