Stjarnan og Þór Akureyri mættust í Ásgarði í kvöld þar sem Stjörnumenn unnu nokkuð þægilegan sigur. Garðbæingar léku án erlends leikmanns  þar sem ekki tókst að fá leikheimild í tæka tíð fyrir hinn nýkomna Anthony Odunsi. Besti leikmaður vallarins í dag var Tómas Heiðar Tómasson sem smellti niður 24 stigum, þar af 6/9 í þristum og gaf þar að auki 7 stoðsendingar. Hjá Þór var Darrell Lewis atkvæðamestur með 21 stig og 4 fráköst.

 
 
Jólasteikin
Leikmenn liðanna mættu hálfandlausir til leiks í dag og virtust heldur betur hafa haft það gott yfir hátíðarnar. Fyrstu 5 mínúturnar liðu án mjög sannfærandi tilþrifa og gekk mönnum erfiðlega að koma sér í góð skotfæri, sér í lagi voru Þórsarar lengi í gang og sást það á því að þeir vildu heldur taka langa tvista heldur en að koma sér upp að körfunni. Það voru svo Stjörnumenn sem vöknuðu síðustu mínútur leikhlutans og komust 12 stigum yfir, 30-18.
 
Tapaðir boltar
Þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur þar sem Stjörnumenn tapa meira en 20 boltum í einum og sama leiknum, en vinna samt sannfærandi sigur. 22 tapaðir boltar voru lokaniðurstaðan í kvöld og mér þykir líklegt að Hrafni Kristjánssyni þjálfara finnist það fullmikið þrátt fyrir sigurinn. Duglegastur allra var Justin Shouse sem fékk dæmd á sig skref 4 sinnum og tapaði í heildina 6 boltum. 
 
Getumunur
Þrátt fyrir kanaleysið þá sást bersýnilega að það er talsverður munur á þessum tveimur liðum, bæði hvað varðar styrk byrjunarliða sem og breidd. Stjörnumenn gátu leyft sér að fara djúpt á bekkinn án teljandi breytinga á skipulagi en það var ekki svo í tilfelli Þórsara, sem reyndu hin ýmsu trix eins og að spila með Þröst Leó í miðherjastöðunni í 2. leikhluta í mjög lágvöxnu liði. Slík trix geta gert gæfumuninn í stuttan tíma en Stjörnumenn sáu fljótlega við því. 
 
…Ooog það er farið
Eftir brösulegan fyrri hálfleik og slæma byrjun á seinni hálfleik þar sem Stjarnan komst mest í 25 stiga forystu þá lifnaði aðeins yfir Þórsurum í 3. leikhluta. Stjörnumenn brutu af mikið af sér og voru Þórsarar komnir í skotrétt eftir tæpar 5 mínútur í leikhlutanum og munaði þar mest um reynsluboltana Danero Thomas og Darrell Lewis sem voru duglegir að koma sér á línuna. Um miðbik fjórða leikhluta var munurinn kominn niður í 7 stig og Hrafn tók leikhlé. Eftir leikhléið sögðu Stjörnumenn hingað og ekki lengra, settu 10 stig í röð og kláruðu leikinn.
 
 
 
 
Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson
 
Mynd / Bára Dröfn