Sverrir Þór Sverrisson þjálfari toppliðs Keflavíkur var gestur í podcasti Karfan.is þessa vikuna þar sem hann ræddi meðal annars um leikmannaferilinn, þjálfunina og Dominos deildirnar.
Þegar talið barst að besta stóra manni Dominos deildar kvenna komu margir leikmenn til greina. Ragna Margrét Brynjarsdóttir leikmaður Stjörnunnar fékk flesti atkvæði í óformlegri könnun þáttarins auk þess sem annar leikmaður Keflavíkur Salbjörg Ragna fékk mörg atkvæði.
Sverrir tók í sama streng en var fljótur að bæta við að Birna Valgerður Benónýsdóttir leikmaður Keflavíkur væri líklega hæfileikaríkasti leikmaðurinn á þessum lista.
„Ég fullyrði það að ég hef aldrei séð eins hæfileikaríka stóra stelpu koma uppúr yngri flokkum kvenna á Íslandi og Birnu. Þá er ég að tala um leikmenn sem spila inní teig. Hún er bara með allan pakkann, getur dripplað eins og bakvörður, hörku skytta, með frábærar hreyfingar og bara virkilega góð í kringum körfuna. Ef við værum að ræða þetta eftir nokkur ár þá væri þetta hún“ sagði Sverrir um Birnu Valgerði.
Sverrir segir einnig frá ferlinum, erlendum leikmanni sem gekk um götur hálfnakinn, spáir í Dominos deildirnar og margt fleira í fyrsta podcasti ársins 2017 sem finna má í heild sinni hér að neðan.
Podcast Karfan.is er komin í loftið hjá Alvarpinu, en það er rás sem er innan vefsíðu Nútímans.