Stjarnan sigraði Keflavík, 106-103, í 15. umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Stjarnan því með 22 stig í 2. sæti deildarinnar á meðan að Keflavík er í 7.-9. sætinu með 14.

 

Kjarninn

Leikurinn í kvöld var að miklu leyti kaflaskiptur. Eftir frekar jafnar upphafsmínútur fyrri hálfleiksins, tóku heimamenn í Keflavík öll völd á vellinum. Eru þrem stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 28-25, en eru svo komnir með forystu sína í 11 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 50-39.

 

Það var svo eins og allt annað Stjörnulið hafi mætt á gólfið í seinni hálfleik. Fyrstu 7 mínútur 3. leikhlutans sigrar Stjarnan 16-6. Þegar um mínúta lifði eftir af leikhlutanum ná þeir svo, með tveimur vítaskotum frá Marvin Valdimarssyni, loksins að jafna leikinn aftur, 64-64.

 

Stjarnan er síðan yfir allt þangað til undir lok venjulegs leiktíma. Þegar 30 sekúndur eru eftir, Keflavík er 2 stigum undir og Stjarnan er í sókn. Þá stelur leikmaður Keflavíkur, Magnús Már Traustason boltanum, gefur hann, geysist upp völlinn, fær boltann aftur og skorar.

 

 

Glæpurinn

Eftir að Magnús Már jafnar leikinn í 88-88 tekur Stjarnan leikhlé. Þá eru 5 sekúndur eftir. Þá virðist þjálfari Stjörnunnar eitthvað hafa verið að gleyma sér. Teiknar upp kerfi sem endar á að Ágúst Angantýsson á að klára, þegar að hann er með Marvin Valdimarsson reiðubúinn á bekknum. Flestir sem þekkja þessa rimmu eitthvað vita það vel að slíkt kerfi á alltaf að enda á því að Marvin Valdimarsson tekur skotið, sé hann til taks, enginn annar.

 

Framlengt

Fyrri framlenging leiksins var hnífjöfn. Liðin skiptust á að skora og greinilegt var að ansi mikið var farið að draga af báðum liðum. Þegar 16 sekúndur eru eftir fer Stjarnan í sókn, 3 stigum undir. Marvin Valdimarsson setur þá þrist og jafnar leikinn. Önnur framlenging.

 

 

Í framlengingu númer tvö var farið að draga all verulega af mönnum. Einnig voru leikmenn Stjörnunnar einn af einum að týnast út af vellinum með 5 villur. Ennþá hnífjafnt, 103-102 fyrir Keflavík þegar rétt tæp mínúta var eftir. Þá hættu hlutirnir að ganga upp hjá Keflavík sóknarlega. Stjarnan tekur forystuna fyrst með tveimur vítaskotum frá Hlyni Bæringssyni þegar 45 sekúndur voru eftir og síðan Marvin Valdimarssyni þegar um 16 sekúndur voru eftir. Keflavík fær mörg tækifæri á þessari lokamínútu til þess að gera betur, en aallt kom fyrir ekki. Stjarnan fer með 106-103 sigur heim í Garðabæinn.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Ætlum ekki að segja að ekki sé hægt að vinna leiki þó að hitt liðið taki fleiri fráköst, en aþað er erfiðara. Stjarnan tók 57 fráköst í þessum leik á móti aðeins 41 hjá Keflavík.

 

Sendið manninn á línuna

Nýr erlendur leikmaður Stjörnunnar, Anthony Odunsi, var stórkostlegur í að koma sér á línuna í kvöld. Fór í heil 20 skipti og setti 14 þeirra skota niður, 70% nýting. Til samanburðar þá fór restin af liðinu í aðeins 14 skipti á línuna og hitti úr 13.

 

Lemstraðir

Sigur Stjörnunnar í kvöld hlýtur á þykja nokkuð merkilegur í ljósi þess hversu lemstraðir þeir eru. Justin Shouse, sem spilaði ekki síðasta leik vegna höfuðmeiðsla, var í byrjunarliðinu, en spilaði þó ekki nema fyrri hálfleikinn. Þá snéri Tómas Heiðar Tómasson sig í 2. leikhlutanum og spilaði ekki meir í leiknum. Þarna eru tveir af burðarásum liðsins farnir. Að klára þennan leik þrátt fyrir það er stórt fyrir restina af liðinu.

 

Maður leiksins

Marvin Valdimarsson var flottur í liði Stjörnunnar í kvöld. Þegar á reyndi var hann sá sem að kom þeim yfir brattasta hjallann. Þrátt fyrir að hafa spilað aðeins 24 mínútur í leik kvöldsins skoraði hann 16 stig.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Davíð Eldur