Stjörnukonur tóku í kvöld á móti Keflvíkingum í Domino’s deild kvenna. Garðbæingar hafa undanfarið verið á mikilli siglingu í deildinni og höfðu fyrir leik kvöldsins unnið fjóra leiki í röð. Keflvíkingar vildu hins vegar koma sér aftur á sigurbraut í toppbaráttunni eftir tap gegn Snæfelli í síðustu umferð. Eftir hörkuleik sem einkenndist af öflugum varnarleik voru það hins vegar Stjörnukonur sem gerðu sg fyrirferðarmiklar í toppbaráttu deildarinnar með öflugum 54-51 sigri.

 

Lykillinn

Líkt og áður segir einkenndist leikurinn helst af góðum varnarleik. Það sem réði helst úrslitum í leiknum sjálfum var nú í raun ekki margt, enda var hann mjög jafn. Stjörnukonur náðu þó að koma sér yfir endalínuna , en í raun hefði leikurinn getað fallið hvorum megin sem var.

 

Hetjan

Dani Rodriguez hlýtur þennan titil í liði heimakvenna eins og svo oft áður. Rodriguez skilaði frábærri tölfræði eins og hennar er von og vísa og lauk leik með 23 stig, 14 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá fær Ragna Margrét Brynjarsdóttir heiðurstilnefningu, en í 4. leikhluta tók hún upp á því að skora 8 stig í röð gegn engu stigi gestanna, og munaði þar sannarlega um minna.

 

Tölfræðin

Fimm. Eina tölfræðin sem skiptir máli eftir kvöldið eru fimm sigurleikir Stjörnukvenna í röð.

 

Framhaldið

Með sigrinum koma Stjörnukonur sér rækilega í toppbaráttuna og færa sig ekki aðeins nær toppliðunum, heldur einnig fjær liðunum í næstu sætum fyrir neðan. Garðbæingar eru nú með 18 stig, einungis tveimur stigum frá Snæfelli í þriðja sæti, og fjórum stigum frá toppliðum Keflavíkur og Skallagríms. Keflavíkurkonur halda toppsætinu þrátt fyrir tapið í kvöld og munu reyna að koma sér aftur á sigurbraut gegn Grindavík í næstu umferð. Stjörnukonur halda hins vegar í Borgarnes í næstu umferð og spila við Skallagrím, þar sem þær gætu fest sig enn frekar í sessi í toppbaráttunni. 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir