Stjörnukonur tóku í kvöld á móti Njarðvík í uppgjöri liðanna í fjórða og fimmta sæti Domino’s deildar kvenna. Fyrir leikinn munaði fjórum stigum á liðunum og því um mikilvægan leik að ræða í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni, þar sem fjögur lið fá þátttökurétt. Skemmst er frá því að segja að sú barátta varð aldrei spennandi, en Stjörnukonur leiddu leikinn nánast frá fyrstu mínútu. Lokatölur voru 80-59, heimakonum í vil og þær festa sig því enn betur í sessi í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

 

Lykillinn

Stjörnukonum tókst að halda Carmen Tyson-Thomas verulega í skefjum, en Tyson-Thomas skoraði þó 32 stig í leiknum og tók 17 fráköst. Skotnýting hennar var hins vegar einungis 34%, en Stjörnukonur hafa sennilega ekki gleymt síðasta leik liðanna, þar sem Tyson-Thomas skoraði 50 stig.

 

Hetjan

Danielle Rodriguez var frábær í kvöld eins og svo oft áður. Rodriguez gerði sér lítið fyrir og náði þrefaldri tvennu, en hún lauk leik með 24 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar.  Stórkostlegur leikmaður, sem stjórnar leik Stjörnunnar af krafti og gerir leikmenn í kringum sig betri.

 

Tölfræðin

24 stig, 12 fráköst, 10 stoðsendingar, ein þreföld tvenna hjá Dani Rodriguez.

 

Framhaldið

Eftir leik kvöldsins er Stjarnan sex stigum á undan Njarðvík í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni í Domino’s deild kvenna. Nú hafa Stjörnukonur líka afrekað það að vinna öll lið deildarinnar sem ætti að gefa þeim aukið sjálfstraust þegar í úrslitakeppnina er komið. Sex sigrar í sjö leikjum hjá Stjörnunni sem spila næst við Valskonur á útivelli. Njarðvíkurkonur eiga hins vegar næst grannaslag gegn Keflavík á útveilli. 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Myndir / Tomasz Kolodziejski