Haukastúlkur sem mættu Snæfelli í Stykkishólmi lentu á vegg fyrstu þrjár mínútur leiksins en staðan var orðin 10-0 fyrir Snæfell. Haukar fengu 3 sénsa á skoti á þessum tíma en töpuðu boltanum sífellt í hendur heimastúlkna. Ekki voru gestirnir að leggjast í kör og settu kraft í leik sinn sem skilaði þeim alvöru leik og staðan breyttist í 13-12 og staðan eftir fyrsta fjórðung 18-14. Snæfell komust svo í 29-19 í öðrum hluta og voru búnar að stela 11 boltum og munurinn lá kannski mest þar að Snæfell refsuðu eftir unnin bolta en á móti voru Haukar að taka fráköstin. Snæfell fengu ekki mikið af sóknarfráköstum til að reyna sig aftur og voru nokkuð undir í þeirri baráttu en voru yfir 34-27 í lok fyrri hálfleiks. Snæfell höfðu skapað sér ágætis forystu í lok þriðja hluta 54-41. Haukar gáfu eftir og Snæfell fundu þægilegan takt. Rebekka Rán lokaði leiknum með bombum og kom með þrjá þrista í röð beint frá Spáni og lokastaðan 73-49.

 

Þáttaskil

Snæfell settu tóninn strax í upphafi leiks en gátu ekkert slakað á og þurftu að hafa fyrir sprækum Hafnarfjarðarmeyjunum. Það var svo í fjórða leikhluta sem Snæfell sprengdi sig frá Haukum sem höfðu minnkað munin öðru hvoru niður þó engin hætta væri á ferðum og öruggur Snæfellssigur í höfn. (ekki Hornafirði)

 

Hetjan

Gunnhildur Gunnarsdóttir endaði með 7 stolna bolta og barðist vel og bætti við 9 stigum og 5 fráköstum og 5 stoðsendingum og fær hetjuna fyrir.

 

Tölurnar

Í hálfleik voru Haukar búnar að taka 23 fráköst á móti 13 Snæfells en á móti hafði Snæfell stolið 12 boltum og Haukar tapað 19. Aaryn hafði skorað 13 stig og Berglind 10 stig fyrir Snæfell en hjá Haukum Nashika með 14 stig. Haukastúlkur töpuðu boltanum 33 sinnum og er alveg morgunljóst að það braut allt niður hjá þeim hins vegar voru þær með 46 fráköst sem gaf þeim von gegn 33 fráköstum Snæfells en það taldi lítið móti 28 stigum Snæfells úr töpuðum boltum gestana. Aaryn Ellenberg var með 26 stig, 8 fráköst, 6 stoðs og 4 stolna bolta fyrir Snæfell og Berglind Gunnarsdóttir var að spila vel á báðum endum vallarins og endaði með 16 stig og 4 stolna bolta. Nashika Williams 21 stig og 18 fráköst fyrir Hauka.

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn

 

 

Umfjöllun / Símon B Hjaltalín

Myndir / Sumarliði Ásgeirsson