Skallagrímur heldur í við Keflavík á toppi Dominos deildar kvenna eftir góðan heimasigur á Stjörunni í dag. Skallagrímur leiddi nánast allan leikinn en Stjarnan var alltaf skrefi á eftir en komst aldrei nær en það og unnu Borgnesingar 79-74 sigur. 

 

Þáttaskil

 

Í byrjun seinni hálfleiks skiptu stjörnustúlkur í svæðisvörn sem fór ekki betur en svo að Skallagrímur setti sex fyrstu stig hálfleiksins og munurinn skyndilega orðinn 16 stig. Stjörnunni tókst aldrei að saxa almennilega á þá forystu og Skallagrímur sigldi sigrinum heim. 

 

Stjörnunni gengur illa að sigra leiki þar sem þær lenda undir og ná sjaldan að setja saman almennileg áhlaup. Á sama tíma sýndi Skallagrímur yfirvegun sóknarlega er liðið fann góð skot og gaf þannig Stjörnunni aldrei tækifæri á að nálgast að viti. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Skallagrímur leiddi leikinn í 39 mínútur og 30 sekúndur í leiknum og því nokkuð sanngjarn sigur liðsins. Stjarnan tapar frákasta baráttu leiksins 46-35 og þar af tóku heimakonur mun fleiri sóknarfráköst. Að öðru leyti er ekki mikill munur á liðinum tölfræðilega, liðin eru með svipaðan fjölda af stoðsendingum og tapa jafn mörgum boltum. 

 

Hetjan

 

Tavelyn Tillman var öflug hjá Skallagrím í dag með 28 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Hún dróg vagninn sóknarlega og tók mikinn fjölda frákasta, skotnýting hennar fyrir utan þriggja stiga línuna var hinsvegar ekki góð eða 12%. Sigrún Sjöfn var að vanda sterk hjá Skallagrím auk þess sem Ragnheiður Benónísdóttir sinnti ruslahlutverkinu hjá liðinu mjög vel. Hjá Stjörnunni voru þær Danielle Rodriquez og Ragna Margrét framlagshæstar en Danielle fékk lítið pláss sóknarlega þar sem Skallagrímur tvöfaldaði vel á hana. 

 

 

Kjarninn

 

Skallagrímur er enn í öðru sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Keflavík eftir sigur dagsins. Varnarleikur Skallagríms í dag var heilt yfir mjög góður og kom Stjörnunni úr jafnvægi. Ljóst er að Manuel Rodriquez var búinn að kortleggja leik Stjörnunnar vel og líkt og Pétur Már þjálfari Stjörnunnar sagði eftir leik var liðið undir í allri baráttu. Fínt jafnvægi er á liðinu en þær voru einungis með níu á skýrslu í dag á heimavelli vegna meiðsla. 

 

Stjarnan þarf ekki að dvelja of lengi við þennan leik. Stöðugleiki liðsins er í fínu lagi en það vantar að liðið nái að búa til alvöru áhlaup og sýni smá drápseðli og löngun til að klára jafna leiki. Liðið náði oft fínum sóknum og ljóst að liðið er vel þjálfað en skotin rötuðu ekki ofan í. Stjarnan er í þessu fjórða sæti sem tryggir úrslitakeppnissæti og ef liðið heldur áfram að bæta sig er ekki hægt að útiloka þær í toppbaráttunni. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn leiksins

 

Viðtöl eftir leikinn:

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Mynd / Ómar Örn Ragnarsson