ÍA tók í kvöld á móti Ármenningum í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi.  Liðin voru fyrir leikinn í 8. og 9. sæti 1. deildar og ljóst fyrir leikinn að engin breyting irði þar á sama hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Svo fór að ÍA  hafði yfirhöndina í leiknum frá upphafi og leiddi leikinn þægilega allan tímann.  Á endanum varð 90 – 62 sigur heimamanna staðreynd.

Munurinn
Munurinn á liðunum í kvöld var einfaldlega sá að Skagamenn voru betri frá upphafi til enda. Skagamenn hittu mund betur, hittu fleiri þristum, tóku fleiri fráköst og gáfu fleiri stoðsendingar og það er uppskrift sem skilar sigri sama hvaða kokkabók er skoðuð.

Hjá ÍA var Derek Shouse besti maðurinn og daðraði við þrefalda tvennu með 27 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar auk þess að stela 5 boltum.  Einnig komu ungu strákarnir vel frá þessum leik og verða bara reynslunni ríkari með hverjum leik.
Hjá Ármenningum var Magnús Ingi stigahæstur með 22 stig en einnig átti Helgi Hrafn flottan leik með 12 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar auk 2ja stolinna bolta.

Atvik leiksins
Leikurinn skartaði nokkrum skemmtilegum atvikum, flottar 3ja stiga körfur, troðsla, stolnir og tapaðir boltar o.s.frv. en ef velja á eitt atriði var það varið skot Sindra Leví þegar lokaflauta leiksins gall og boltinn endaði upp í stúku.

 

Tölfræði leiks

Mynd: Jónas H. Ottósson
Texti: HGH