Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður Skallagríms og íslenska landsliðsins var í dag valin íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2016.
Sigrún lék með Grindavík fyrri helming ársins sem komst í undanúrslit Dominos deildarinnar, úrslit bikarkeppninnar og var lykilmaður í því liði. Í sumar ákvað hún svo að semja við uppeldisfélag sitt Skallagrím og leika með því.
Liðið er í öðru sæti deildarinnar þessa dagana og er í mikilli baráttu um deildarmeistaratitilinn þar sem Sigrún hefur verið frábær með 14,6 stig, 11,3 fráköst og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Að auki var hún byrjunarliðsmaður í landsliði Íslands sem vann frábæra sigra á Ungverjalandi og Portúgal á árinu en hún var einmitt maður leiksins í leiknum gegn Portúgal.