Það var fyrir hartnær 40 árum sem að Danny Shouse kom til Íslands og spilaði fyrir lið Ármann og svo síðar Njarðvíkinga.  Shouse lagði grunninn að fyrsta titli félagsins sem eru svo í dag orðnir 13 þó þurð hafi verið í þeim efnum síðasta áratuginn rúmann.  Nú í vikunni mætti í Ljónagryfjuna, Derek Dan Shouse sonur hins goðsagnakennda Danny og virti fyrir sér gamla vinnustað föður síns. "Þetta er lítið en mjög flott íþróttahús sem augljóslega hefur mikla sögu að geyma.  Mér fannst þetta mjög flott og leit ekki út fyrir að hafa tekið miklum breytingum frá því þegar pabbi var að spila hérna miðað við myndbönd sem ég hef séð frá því.  Á myndböndunum fannst mér þetta vera íþróttahús sem hefur góða nærveru og ég upplifði það." sagði Derek í samtali við Karfan.is

 

Derek hefur spilað með ÍA í 1. deildinni í vetur og líkar vel en vissulega hafði hann smá áhyggjur af því að hann þyrfti að fylla í fótspor föður síns þegar hann kæmi hingað að spila. "Ég vissi ekki hvað fólk myndi ætlast af mér eða vita hvað ég gæti í körfubolta. En síðan ég hef komið hefur sjálfstraust mitt aukist og ég hef sett mér mín eigin markmið í stað þess að vera að elta einhver viðmið sem faðir minn setti fyrir einhverjum tugum árum síðan. Mér líður töluvert betur þannig." sagði Shouse. 

 

Aðspurður um hvort Danny Shouse faðir hans tali enn um Ísland og veru hans hér á landi sagði Derek að svo væri. " Já hann elskaði að vera hérna og sú staðreynd að ég sé að spila hérna rifjar upp margar minningar fyrir hann.  En allt síðan ég var lítill strákur man ég eftir honum tala um tíma sinn hér á landi og hversu gott fólkið hér og í raun besti tíminn í lífi hans.  Hann sagði okkur reglulega söguna af 100 stiga leiknum sínum, ég er líklega búin að heyra hana jafn oft og stigin sem hann skoraði í leiknum." sagði Shouse að lokum og hló dátt. 

 

Mynd/GÖrl:  Derek Shouse með fyrrum liðsfélaga föður síns, Gunnari Þorvarðasyni og Loga Gunnarssyni landsliðsmanni í Ljónagryfjunni