Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og slóu Hauka út úr bikarnum í hörkuleik að Hlíðarenda í kvöld.  Haukar byrjuðu leikinn betur og leiddu framan af en Valsmenn gáfu hvergi eftir og tóku völdin á vellinum í þriðja leikhluta.  Valsmenn hafa því slegið út þrjú úrvalsdeildarlið á leið sinni í Laugardalshöllina þar sem þeir mæta Þór Þorlákshöfn, Grindavík eða KR. 

 

Þáttaskil

Kraftu Valsmanna í upphafi þriðja leikhluta og að því er virtist endalaus orka þeirra til þess að gera leikmönnum Hauka lífið leitt var það sem skildi liðin að í dag.  Á meðan Haukar virtust pirraðir var öll stemming með Valsmönnum sem óðu í alla bolta og pressuðu boltan við hvert tækifæri.  

 

Tölfræðin

Ótrúlegt en satt nýttu Valsmenn breiddina betur en Haukar.  Bekkurinn hjá Val spilaði meira, skoraði meira, tók fleiri fráköst og gáfu fleiri stoðsendingar en bekkurinn hjá Haukum.  Haukar virtust ætla að treysta á skytturnar sínar sem voru lang flestar undir pari í kvöld því aðeins 8 af 29 þristum Hauka fóru ofaní á meðan Valur sótti meira inn í teig og uppskáru 15 fleiri tilraunir á körfuna sem þeir nýttu betur.  

 

Hetjan

óumdeilanleg hetja kvöldins var Austin Magnus Bracey sem sá strax  í upphafi leiks að þetta yrði hans leikur.  Haukar lokuðu algjörlega á Urald King og Austin greip tækifærið og setti 33 stig, þar af 19 í fyrri hálfleik. Það verður þó ekki tekið af Urald King að hann hirti 22 fráköst í leiknum og bætti við 25 stigum.  

 

Kjarninn

Barátta og sigurvilji Valsmanna var það sem kom þeim áfram í fjögurra liða úrslit.  Liðið gafst aldrei upp, pressaði stíft allan leikinn og sýndi engin þreytumerki undir lok leiks.  Öskubuskuævintýri Valsmanna í bikarnum í ár lifir því enn góðu lífi.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Gísli Ólafsson

Myndir / Torfi Magnússon

 

Viðtöl: