Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Njarðvík í 14. umferð Domino’s deildar karla. Fyrir leikinn voru heimamenn á toppi deildarinnar, en gestirnir voru með 10. stig við fallsvæði deildarinnar. Justin Shouse var fjarverandi í liði Stjörnunnar í kvöld vegna meiðsla og er óvíst hvenær hann snýr aftur hjá Garðbæingum. Eftir jafnan og æsispennandi leik fór það svo að gestirnir höfðu tveggja stiga sigur, 72-74.
 

Lykillinn

Það má einfaldlega segja að Njarðvíkingar hafi unnið á seiglunni. Leikurinn einkenndist af góðum varnarleik og frekar slökum sóknarleik en það voru gestirnir sem hittu úr stóru skotunum þegar á reyndi, og sigurinn fer því suður Reykjanesbrautina.

 

Hetjan

Björn Kristjánsson hitti risastórum þrist fyrir Njarðvíkinga þegar þeir voru tveimur stigum undir og tæp mínúta lifði af leiknum. Alger rýtingur hjá Birni, sem tryggði gestunum stigin tvö. Hefði leikurinn dottið heimamönnum í vil, sem hann gerði ekki, hefði verið erfitt að horfa fram hjá Hlyni Bæringssyni, en fyrirliði Stjörnumanna skoraði 24 stig og tók 18 fráköst.

 

Tölfræðin

Njarðvíkingar tóku 11 færri fráköst en Garðbæingar, en unnu þrátt fyrir það. Það útskýrist að einhverju leyti af afleitri skotnýtingu heimamanna en þeir Tómas Heiðar Tómasson og Arnþór Freyr Guðmundsson, sem allajafna eru frábærar skyttur, áttu erfiðan leik og hittu saman aðeins úr einu skoti af sextán utan af velli.

 

Framhaldið

Sigurinn var Njarðvíkingum sannarlega kærkominn í þeim þétta pakka sem er að myndast í fjórða til ellefta sæti Domino’s deildarinnar. Stjörnumenn féllu hins vegar úr toppsætinu með tapi og sitja í þriðja sæti með 20 stig. Njarðvíkingar eru hins vegar nú einungis tveimur stigum frá fjórða sæti deildarinnar, og þar með heimavallarétti í úrslitakeppni, en Þórsliðin í fjórða og fimmta sæti eiga þó leik til góða. 

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson