Í myndbandinu hér fyrir neðan sjáum við hvernig þjálfari franska þriðjudeildarliðsins Caen, Hervé Coudray, setur öxlina í leikmann Souffel, Julien Delmas, við hliðarlínuna í viðureign liðanna um síðustu helgi. Skiljanlega varð uppþot við atvikið, þar sem að niðurstaða dómara var á þann veg að leikmaðurinn fékk dæmda á sig tæknivillu en þjálfarinn slapp alveg. Eitthvað hefur þetta komið Delmas úr jafnvægi, sem að skoraði ekki stig í leiknum, sem að Caen vann með 4 stigum, 77-73.

 

Eftir að atvikið fór svo á netið hefur bæði þjálfarinn og félag hans beðist afsökunar á því opinberlega.

 

Þess má geta að Caen er einmitt fyrrum félag eins besta körfuknattleiksmanns Frakklands um þessar mundir, leikmanns Charlotte Hornets, Nic Batum, en hann lék með þeim á árunum 2001-2003.