Njarðvík sigraði Hauka. 73-74, í 14. umferð Dominos deildar kvenna fyrr í kvöld. Njarðvík er því í 5. sæti deildarinnar, 4 stigum frá Stjörnunni í því 4. Haukar eru sem fyrr í 7.-8. sæti deildarinnar ásamt Grindavík.
Haukar höfðu fyrir leikinn staðið í því að leysa Kelia Shelton frá störfum og fá til sín nýjan erlendan leikmann í staðinn. Ekkert varð þó af því að þessi leikmaður spilaði í kvöld sökum þess að pappírsvinnan hafði ekki verið farin í gegn og sú því ekki lögleg með þeim. Því ljóst að á brattan yrði að sækja fyrir botnliðið.
Njarðvík var betri aðilinn í fyrri hálfleik leiksins. Sigra fyrsta leikhluta 15-18 og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik höfðu þær bætt við forystu sína, 28-37. Mesti munur á liðunum í leiknum kom í þessum 2. leikhluta þegar að Njarðvík komust 12 stigum framúr heimastúlkum.
Haukar mættu svo mun betur stemmdir til seinni hálfleiksins, ná að skera aðeins á forystu gestanna fyrir lokaleikhlutann. Voru þá aðeins 4 stigum undir 53-57. Þessu svaraði Njarðvík með glæsilegri byrjun á 4. leikhlutanum. Komu muninum mest í 11 stig aftur um miðbygg hans. Haukar náðu þó að kroppa aftur í þá forystu og voru aðeins hársbreidd frá því að ná að jafna leikinn eða komast yfir aftur í lokin. Hefðu þó tapað með 4 stigum ef að leikmaður þeirra, Anna Lóa Óskarsdóttir, hefði ekki skorað um leið og lokaflautan gall. Fór svo að Njarðvík sigraði 73-74.
Atkvæðamest fyrir heimastúlkur var Þóra Kristín Jónsdóttir með 12 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar á 27 mínútum spiluðum. Fyrir gestina var það Carmen Tyson Thomas sem dróg vagninn með 40 stigum, 16 fráköstum og 4 stolnum boltum.