Eyðimerkurganga Snæfells heldur áfram því Njarðvíkingar höfðu af þeim tvö stig í Domino´s-deild karla í kvöld. Gestirnir úr Hólminum sýndu fína spretti í Ljónagryfjunni en urðu á endanum að fella sig við 99-70 ósigur. Tvö mikilvæg stig fyrir Njarðvíkinga en Hólmara bíður fátt annað en þátttaka í 1. deild á næstu leiktíð. Myron Dempsey sem lék sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld skilaði tvennu og þá var Viktor Marinó Alexandersson stigahæstur í liði Snæfells með 20 stig.

Fyrstu stig Myron Dempsey fyrir Ungmennafélag Njarðvíkur voru í formi myndarlegrar hraðaupphlaupstroðslu. Gestirnir úr Hólminum byrjuðu þó betur, hittu vel og komust í 2-6 og síðar 13-14 og börðust vel. Heimamenn í Njarðvík leiddu þó 26-18 eftir fyrsta leikhluta en Hólmarar leiddu frákastabaráttuan 14-6. Eins og áður hefur komið fram lék Christian Colvile ekki með Snæfell í kvöld þar sem hann fékk ekki atvinnuleyfi hjá Útlendingastofnun og er því á leið til Bandaríkjanna á nýjan leik, það var því á brattann að sækja hjá Hólmurum. Þá lék Vilhjálmur Theodór Jónsson sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld og var í byrjunarliðinu.

Njarðvíkingar komust í 37-23 snemma í öðrum leikhluta og allt benti til þess að grænir myndu stinga hægt og örugglega af en annað kom á daginn. Snæfell stokkaði til í varnarleiknum, prófaði sig áfram í svæðisvörn og menn voru vinnusamir. Að sama skapi voru Njarðvíkingar að framkvæmda mikið af sínum aðgerðum í öðrum eða þriðja gír og hreint út sagt ekki að sýna verkefninu nægilega mikinn áhuga. Hólmarar nýttu sér þennan slyðruhátt í heimamönnum, unnu annan leikhluta 20-22 og staðan því 46-40 fyrir Njarðvík í hálfleik.

Myron Dempsey var stigahæstur í liði Njarðvíkinga í leikhléi með 15 stig og 7 fráköst en hjá Snæfell var Viktor Marinó Alexandersson með 12 stig og 4 fráköst.

Björn Kristjánsson skellti í tvo þrista fyrir heimamenn í Njarðvík í upphafi síðari hálfleiks og grænir leiddu 52-42. Snæfellingar létu þó ekki stinga sig af en staðan 72-57 að loknum þriðja leikhluta og ljóst að þónokkuð þyrfti að ganga á til þess að Hólmurum tækist að jafna leikinn eða ná forystunni.

Í upphafi fjórða leikhluta var munurinn kominn í 20 stig, 79-59 og eftirleikurinn auðveldur fyrir Njarðvíkinga. Hólmarar stóðu sig vel í kvöld, börðust vel en gerðust of oft sekir um óvandaðar og illa ígrundaðar sendingar, voru t.d. með 20 tapaða bolta eftir 30 mínútna leik. Njarðvíkingar að sama skapi höfðu það nokkuð náðugt en sýndu augljósan getumun á milli liðanna þegar þeir loks ákváðu að leggja kraft í verkefnið. Lokatölur í Ljónagryfjunni 99-70 Njarðvík í vil.

Þrír liðsmenn Njarðvíkinga léku sinn fyrsta leik fyrir félagið í kvöld, Myron Dempsey skilaði 21 stigi og 12 fráköstum á 22 mínútum, Vilhjálmur Theodór Jónsson gerði 4 stig, tók 3 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Jón Sverrisson sem samdi við liðið í sumar og lék sinn fyrsta leik eftir meiðsli gerði 2 stig á tæpum sjö mínútum og þá var hann einnig með 3 fráköst.

Hjá Snæfell var Viktor Marinó Alexandersson stigahæstur með 20 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og næstur honum var Árni Elmar Hrafnsson með 14 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins
Myndasafn

Umfjöllun/ nonni@karfan.is
Myndir/ skuli@karfan.is