Carmen Tyson-Thomas fór mikinn í kvöld þegar Njarðvík lagði Grindavík 81-61 í Domino´s-deild kvenna. CTT var með 44 stig í kvöld, 19 fráköst, 6 stoðsendingar og 7 stolna bolta! Heimakonur í Ljónagryfjunni voru við stýrið frá upphafi til enda en Grindvíkingar mættu vængbrotnir til leiks án Angelu Rodriguez þar sem leyfispappírar hennar eru enn á leið í gegnum „báknið.“ Þá var Ingibjörg Jakobsdóttir í borgaralegum klæðum í kvöld og Petrúnella Skúladóttir spilaði lítið vegna tognunar.
Njarðvíkingar gengu á öllum fjórum sílindrum í upphafi leiks, átta leikmenn liðsins skoruðu á fyrstu 10 mínútunum og heimakonur leiddu 27-14 eftir fyrsta leikhluta. Ingunn Embla var beittust í liði gestanna með 7 stig í fyrsta hluta en andleysi og lek vörn einkenndi gestina á meðan heimakonur voru vel stemmdar og börðust af krafti.
Allt annar bragur var á Grindavíkurliðinu í öðrum leikhluta, vörnin mun betri og Lovísa Falsdóttir kom með flottan kraft inn í leik gestanna sem náðu að minnka muninn í 41-32 fyrir hálfleik. Dapur leikhluti hjá Njarðvíkingum sem fékk þó jákvæðan enda þar sem Carmen Tyson-Thomas brunaði upp völlinn með átta sekúndur eftir, komst í þolanlegt stökkskot sem dansaði í gegn.
Carmen var stigahæst í liði Njarðvíkinga með 18 stig og 9 fráköst í leikhléi en Ingunn Embla Kristínardóttir var með 13 stig í liði Grindavíkur.
Gestirnir úr Grindavík áttu sterka innkomu í síðari hálfleikinn og náðu að minnka muninn í 43-40 en náðu aldrei að jafna né taka forystuna. Njarðvíkingar sem fyrr með stjórnartaumana en nú var komið að Grindvíkingum að splæsa í flautukörfu við lok leikhlutans en það gerði Íris Sverrisdóttir þegar hún minnkaði muninn í 62-51.
María Ben Erlingsdóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir voru helsta ógnun Grindavíkur í kvöld en fleiri hefðu þurft að leggja lóð sín á vogarskálarnar. Þegar tæpar fjórar mínútur lifðu leiks tóku Njarðvíkingar á rás og lokuðu leiknum 81-61. Tvö mikilvæg stig í sarpinn hjá Njarðvíkingum sem eru nú í 5. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Stjörnunni og verður fróðlegt að sjá hvort Njarðvíkingum takist að gera góða atlögu að sæti í úrslitakeppninni.
Mynd/ nonni@karfan.is/ Ína María Einarsdóttir er mætt aftur í Njarðvikurbúninginn eftir nokkra veru vestanhafs.