Átta liða úrslit Maltbikarsins fara af stað í dag þegar botnlið Dominos deildar kvenna Grindavík tekur á móti toppliði Keflavíkur kl 16:00 í Mustad höllinni. 

 

Liðin hafa mæst tvisvar í Dominos deildinni fyrr í vetur og hafði Keflavík sigur á nágrönnum sínum í bæði skiptin. Fyrra skiptið 89-65 í Grindavík og svo 84-66 í seinni leiknum. Keflavík hefur tapað tveim leikjum í röð í deildinni og mæta því líklega tilbúnar til leiks.

 

Grindavík mun að öllum líkindum spila án erlends leikmanns þar sem Angela Rodriquez hefur enn ekki fengið atvinnuleyfi. Bjarni Magnússon þjálfari liðsins er enn í veikindaleyfi og mun Jóhann Ólafsson stýra liðinu í hans stað. Bjarni var bjarsýnn þegar dregið var í átta liða úrslitunum.

 

Leikurinn er sá fyrsti í átta liða úrslitum bikarsins sem fram fara á næstu dögum. Hann er í beinni útsendingu á Rúv. 

 

 

Í fyrstu deild karla fer svo fram einn leikur þegar topplið Hattar tekur á móti Ármanni sem er enn án sigurs en liðið fékk góða viðbót við liðið í vikunni. Leikurinn fer fram kl 14:00.