Margir litríkir og eftirminnilegir leikmenn hafa komið við á Íslandi og leikið í skemmri og lengri tíma. Makedóninn Jovan Zdravevski lék í efstu deild á Íslandi í mörg ár við góðan orðstír og er gríðarlega eftirminnilegur hjá körfuboltaáhugamönnum landsins. 

 

Jovan kom fyrst til Skallagríms og lék þar á árunum 2004-2007, fór í lokaúrslit Íslandsmótsins og var mikilvægur hlekkur í sterku liði Skallagríms. Eftir stutt stopp hjá KR lág leiðin í Ásgarð þar sem hann lék í fimm ár með Stjörnunni og vann tvo bikarmeistaratitla með liðinu. 

 

Það var einmitt í Ásgarð sem Karfan.is hitti Jovan Zdravevski á dögunum þar sem hann var viðstaddur leik Stjörnunnar og Þórs Ak. 

 

Hann sagðist hafa fylgst með deildinni ágætlega frá því hann yfirgaf Ísland fyrir nærri fjórum árum síðan. „Deildin er jöfn, mikil samkeppni og gríðarlegur hraði sem ég sé. Það er gaman að vera hér og horfa á þennan leik, mér líður vel í Ásgarði.“ sagði Jovan.

 

Jovan flutti þá til Svíþjóðar þar sem hann hefur leikið með IK EOS Lund allar götur síðan. Liðið leikur í næst efstu deild í Svíþjóð og hefur Jovan verið í stóru hlutverki síðustu ár. En hví er hann á Íslandi núna og heldur hann tenginu við landið?

 

„Konan mín er íslensk og sonur minn því hálf íslenskur. Ég eignaðist vini til lífstíðar hér á Íslandi svo ég hef ansi mikla tengingu við Ísland.“

 

„Ég spila enn mér til gamans í Svíþjóð, í annari deildinni þar. Ég er ekki enn að spila sem atvinnumaður og er því ekki eins einbeittur í því verkefni en mér gengur ágætlega. Ég nýt þess að spila körfubolta og því er ég enn að spila iþróttina og skemmta mér.“ 

 

 

Eins og áður sagði er Jovan frá Makedóníu og lék með sterkum liðum þar í landi áður en hann ákvað að leika í Borgarnesi. Síðan þá hefur hann fengið íslenskt ríkisfangog tengst landinu verulega. En hvernig ber hann saman tíma sinn á Íslandi saman við árin í Svíþjóð?

 

„Það er erfitt að bera saman tímann minn hér á Íslandi við síðustu ár í Svíþjóð. Hér var ég mun yngri og ástríðufyllri leikmaður. Þetta var frábær tími hér á Íslandi og þegar ég lít til baka er ekkert sem ég myndi vilja breyta. Nú þegar ég er orðin faðir þá hugsa ég að ég gefi Svíþjóð meiri tíma, það er mun barnvænna land fyrir okkur. Ég mun því ekki spila aftur körfubolta á Íslandi, allavega ekki á næstunni – því miður.“ sagði hinn 36 ára Jovan og hló. 

 

En hversu mikið á Jovan eftir af körfuboltaferli sínum?  „Á meðan ég get gengið þá get ég skotið. Ég er ekki mikið í líkamlegri baráttu lengur svo ég held að ég eigi enn nokkur ár eftir að spila einhvern körfubolta.“ sagði Jovan að lokum. 

 

Viðtal / Ólafur Þór Jónsson