KR sigraði Hauka 77-69 á heimavelli sínum í DHL Höllinni fyrr í kvöld. Eftir leikinn er KR því enn í efsta sæti deildarinnar á meðan að Haukar eru í því 11.

 

Liðin mættust í lokaúrslitum úrslitakeppni síðasta tímablils. Þá rimmu sigraði KR með þrem sigrum gegn einum Hauka. Í einu viðureign liðanna áður í vetur fór KR einnig með sigur af hólmi, en þá var það mun öruggara heldur en í kvöld.

 

Erlendur leikmaður

Fyrr í dag var það gefið út að KR hefði sagt upp samningi við erlendan leikmann sinn Cedrick Taylor Bowen og myndi því leika án hans í leik kvöldsins. Cedrick, ekki beint verið að draga vagninn fyrir þá það sem af er tímabili, en hefur þó átt sína spretti. Því ákveðin áhætta fyrir annars vel mannað lið KR að vera ekki komnir með eftirmann hans inn í liðið. Skipti þó, að lokum, eins og tölurnar gefa til kynna engu máli. Ekki hefur verið gefið út hver nýji leikmaðurinn er, en eftir leik staðfesti þjálfari KR, Finnur Freyr Stefánsson, að hann yrði kynntur komandi laugardag. 

 

Kjarninn

Þrátt fyrir brösugt gengi upp á síðkastið sýndu Haukar hvað í þeim býr á löngum köflum í leik kvöldsins. Reyndar má að sama skapi færa rök fyrir því að heimamenn í KR hafi verið að spila langt undir getu lunga þessa leiks. Þá aðallega lykilmenn þeirra. Jón Arnór Stefánsson var hreint skítkaldur í þessum leik. Skoraði ekki körfu fyrr en seint í 4. leikhlutanum, þrátt fyrir nokkrar tilraunir til þess og endar leikinn með aðeins 2 stig skoruð. Breiddin í liði KR er þó einhver og sýndu leikmenn þeirra Snorri Hrafnkelsson og Darri Hilmarsson það í kvöld að þegar það vantar eitthvað upp á, þá mæta þeir bara og gera það sem þarf. Ef einhverntíman við gætum talað um sigur liðsins, þá var þetta einn slíkur fyrir heimamenn í kvöld.

 

Vendipunkturinn

Eins og áður var tekið fram gerðu gestirnir úr Hafnarfirði vel í að hleypa KR ekki of langt frammúr sér í fyrstu þrem leikhlutum leiksins. Stóru mennirnir þeirra, Breki Gylfason og Finnur Atli Magnússon virkilega góðir í kvöld. Fór svo að í lok þess þriðja náðu þeir, með snörpu áhlaupi að vera með yfirhöndina, 53-54. Í byrjun 4. leikhlutans tók svo við kafli þar sem að liðin skiptust á að hafa forystuna í nokkur skipti. Með laglegum þristum frá Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni og síðan Sigurði Þorvaldssyni nær KR, þegar um 4 mínútur eru eftir, að koma muninum upp í 9 stig. Eftir þetta lítur KR svo ekkert til baka, sigla góðum 77-69 sigri í höfn.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Mikill munur var á nýtingu liðanna fyrir utan þriggja stiga línuna. KR setti 11 þrista niður úr aðeins 24 tilraunum, 45% nýting, á meðan að Haukar voru heillum horfnir frá sama stað, hittu úr aðeins 3 skotum af 26 tilraunum, 11% nýting.

 

Maður leiksins

Pavel Ermolinski var flottur fyrir sína menn í kvöld. Skoraði 8 stig, tók 11 fráköst, gaf 13 stoðsendingar og stal 5 boltum á þeim 31 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl: