Kristinn Marínósson leikmaður ÍR meiddist illa í leiknum gegn Snæfell í Dominos deild karla í síðustu umferð. Hann fékk þá högg á hnéð svo hann lág mjög kvalinn eftir á vellinum.

 

Enn er óljóst hversu alvarleg meiðslin eru en hnéð er enn mjög bólgið og því ekki hægt að mynda það fyrr en bólgan hefur hjaðnað.

 

Kristinn vonaðist til þess að komast í myndatöku á hnénu fyrri part viku í samtali við Karfan.is. Hann sagðist vona það besta, ljóst er að hann væri óbrotinn en lið- eða krossbönd gætu verið í hættu. 

 

Kristinn sem kom til liðs við ÍR frá Haukum í sumar er með 4,8 stig og 3,4 fráköst að meðaltali í leik fyrir ÍR á tímabilinu. Hann hefur átt við nokkur meiðsli að stríða í gegnum tímabilið og því mikið áfall fyrir liðið ef meiðslin reynast alvarleg. ÍR er í 9. sæti deildarinnar og mætir Stjörnunni á heimavelli í næstu umferð.