Matthías Orri leikmaður ÍR var án nokkurs vafa hetja í leiknum gegn Stjörnunni í kvöld.: 

 

Karfan.is tók hann í stutt spjall að leik loknum.

Þetta var algerlega sturlaður leikur hjá þér og kannski bara liðinu í heild þó svo að þú og Hankins-Cole sáuð að mestu um stigaskorið – en það dugði a.m.k.

Það dugði og það er kannski ekki stóra málið í þessum sigri. Maður eins og Daði Berg sem hefur ekki verið að spila mikið á tímabilinu kemur inn í þennan leik og tekur hraustlega á Justin og það er bara rosalega stór lykill að þessum sigri. Það tekur pressuna af mér varnarlega – hann er alger hundur þarna inn á, rosalega gott að hafa hann inn á. Svo kom Sæþór inn af bekknum, setur risastóran þrist og spilaði góða vörn. Allt svona er mjög mikilvægt.

 

Vissulega, Daði Berg var mjög áberandi í varnarleiknum.

Jájá, hann er alveg óþolandi á æfingum, ég sagði við hann fyrir leik að vera jafnóþolandi í kvöld og á hverjum einasta degi hérna í Seljaskólanum. Hann var það svo sannarlega og það skilar rosalegri pressu og ég veit það sjálfur að það er svo óþægilegt að vera með svona pressu á manni allan leikinn eins og Justin var með í kvöld. Justin er auðvitað heilinn í þessu hjá þeim og það er náttúrulega hrikalega mikilvægt að spila góða vörn gegn honum.

 

Mér sýnist Hankins-Cole vera að gera mjög vel fyrir ykkur – hann virðist gera mikið fyrir liðið andlega líka – hann er bara all-in, hvetjandi áhorfendur áfram og ég veit ekki hvað.

Jájá, þetta er alveg hrikalega góður karakter og er búinn að lyfta þessu mikið upp hjá okkur. Þeir sem spila körfubolta vita að maður spilar langbest þegar maður spilar glaður og hefur gaman af þessu – það hjálpar rosalega mikið til. Svo er hann svolítill sýningarmaður, hann vill hafa áhorfendur með í þessu og troða og öskra! Hann er bæði upp og niður í þessu, reiður og glaður og það er bara gott. 

 

Þið hafið oft á tíðum verið að byrja vel í leikjum í vetur en svo hefur botninn dottið úr þessu hjá ykkur. Síðustu leikir gegn Stjörnunni eru t.d. ágæt dæmi um það. Ég var svolítið að bíða eftir því í þessum leik að það myndi gerast.

Já, einmitt. Ég talaði um það í viðtölum fyrr í vetur að við vorum að tapa leikjum á seinni hlutanum og það var mjög mikilvægt fyrir okkur í þessum leik að standast áhlaupið þeirra í þriðja leikhluta og byggja svo ofan á það. Þá urðu þeir pirraðir og byrjaðir að óttast það að tapa leiknum og það hentar okkur vel. Ég held að við séum komnir yfir þann þröskuld núna að óttast það að tapa leikjum og nú mætum við til að sækja sigrana. Það er bara komið aðeins meira sigurhugarfar í okkur og það mun haldast út. Þetta snýst bara um að vera með sjálfstraust og vita það að maður sé að fara að vinna. Maður þarf að taka því höggi sem maður verður fyrir, körfubolti er leikur áhlaupa og það kemur alltaf högg – maður þarf bara að taka þeim og taka eitt skref áfram.

 

Einmitt, það hefur t.d. verið talsvert högg þegar Shouse setti tvo þrista í röð og jafnaði leikinn í 66-66.

Já, akkúrat, ég er ótrúlega ánægður með hvernig við brugðumst við þá. Það hefðu mörg lið floppað eftir það gegn svona liði eins og Stjörnunni en við héldum haus og nú erum við búnir að byggja svolítið upp góðan og sterkan heimavöll og við ætlum að verja hann – höfum nú unnið síðustu þrjá heimaleiki. Við stelum svo nokkrum á útivöllum og þá erum við í góðum málum.

 

Viðtal / Kári Viðarsson