Topplið Stjörnunnar mætti í Hertz-helli ÍR-inga í kvöld. Stjörnumenn hafa verið á góðu skriði undanfarið og ekki tapað leik síðan í höfuðstað Vesturlands í nóvember. ÍR-ingar hafa kannski ekki alveg náð að standa undir væntingum í vetur en þeim til varnar má benda á að þeir hafa orðið fyrir ýmsum skakkaföllum. Þó hafa þeir ekki tapað á heimavelli síðan í nóvember og hafa verið að sækja í sig veðrið.
Þáttaskil:
Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og Hankins-Cole leiddi liðið áfram sem og stúkuna! Hann skoraði alls kyns körfur og kom ÍR-ingum í 9-2 með svakalegri tröllatroðslu og peppaði auðvitað stúkuna á leiðinni til baka í vörnina. Heimamenn komust í 21-13 en gestirnir áttu góðan endasprett og staðan var 23-20 eftir einn fjórðung.
ÍR-ingar juku aftur við forystuna í öðrum leikhluta með Hankins-Cole og Matthías í fararbroddi og voru um 10 stigum yfir mestallan fjórðunginn. Þeir sem muna eftir síðustu viðureign þessara liða eru lokamínúturnar hins vegar Stjörnumanna og engin breyting var á því – meistari Shouse setti snögg fimm stig í lokin og staðan 44-40 í hálfleik. Þá var Hankins-Cole kominn með 20 stig og brosti allan hringinn.
Þriðji leikhluti var jafn og spennandi. Vafalaust var undirritaður ekki einn um það að vera að bíða svolítið eftir því að botninn myndi detta úr þessu hjá heimamönnum og þegar Ágúst kom gestunum yfir í fyrsta sinn í leiknum með hálf-troði mátti alveg búast við því. Það gerðist þó ekki, Sæþór setti risastóran þrist og heimamenn voru enn fjórum stigum yfir fyrir lokabaráttuna.
Matthías Orri var greinilega orðinn þreyttur á því að gefa eftir í lok leikja og spilaði stórkostlega í lokaleikhlutanum. Meistari Shouse gerði allt til að svara og jafnaði í 66-66 með tveimur þristum í röð. Allt kom fyrir ekki og heimamenn staðráðnir að landa stigunum. Varnarleikur liðsins var frábær í leiknum og stórkostlegur á lokamínútunum. Gestirnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð – sáu ekki glitta í körfuna og töpuðu boltanum í gríð og erg. ÍR-ingar sigu framúr og kláraðu leikinn á vítalínunni – lokatölur 82-74.
Tölfræðin lýgur ekki:
Stjörnumenn töpuðu 22 boltum í þessum leik. Það getur topplið ekki boðið upp á en þó verður að benda á að varnarleikur ÍR var algerlega til fyrirmyndar.
Hetjan:
Það var sannarlega hetja í þessum leik. Matthías Orri skoraði 30 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 3 fráköst. Þar að auki stýrði hann liðinu afar vel og bauð upp á verulega góða skotnýtingu. Nefna verður Hankins-Cole líka en hann er skorarinn, varnarmaðurinn, frákastarinn, pepparinn, stuðningsmaðurinn, húsvörðurinn í Hertz-hellinum og undirritaður er örugglega að gleyma ýmsu til viðbótar…
Kjarninn:
Þetta tap hlýtur að vera umtalsvert áfall fyrir Stjörnumenn. Þrátt fyrir Kanaskipti og meiðsli Marvins vantar ekki getuna. Landsliðsfyrirliðinn var algerlega út á þekju í leiknum ásamt mörgum öðrum Stjörnumönnum og líkast til verður að skrifa þessa frammistöðu á andlegu hliðina.
Þó verður það ekki tekið af ÍR-ingum að þeir sýndu hvers þeir eru megnugir í kvöld. Frábær varnarleikur skóp sigurinn og stigin frá Matthíasi og Hankins-Cole ásamt nokkrum góðum molum frá öðrum dugðu til. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig liðið mætir til leiks í næstu umferð – þessi frábæri sigur er a.m.k. eitthvað til að byggja á.
Umfjöllun / Kári Viðarsson
Myndir / Bára Dröfn