Þórsarar hrifsuðu grobbréttinn af Tindastóli í kvöld með öruggum sigri þegar liðin mættust í 13. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta. Fyrirfram bjuggust flestir við jöfnum og spennandi leik en sú varð ekki raunin, yfirburðir Þórs í kvöld voru einfaldlega of miklir og segja má að úrslitin hafi ráðist í fyrri hálfleik. Eins og fram kemur í viðtalinu við Benedikt þjálfara spilaði Þór sinn allra besta leik í fyrri hálfleik, þann besta frá því hann tók við liðinu.

 

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og komust snemma í 8-0 en þá kom ágætur kafli hjá gestunum sem skoruðu 3-8 og breyttu stöðunni í 11-8 en nær komust gestirnir ekki og leiðir skildu. Þórsarar léku á alls oddi og kláruðu leikhlutann með stæl og leiddu að honum loknum með 18 stigum 32-14.

 

Heimamenn voru komnir á lagið léku við hvurn sinn fingur á meðan hvorki gekk né rak hjá gestunum. Þórsarar drifnir áfram af stórleik George Beamon bættu jafnt og þétt í forskotið og þegar flautað var til hálfleiks munaði 29 stigum á liðunum 63-34. Þá hafði Beamon þar af hafði Beamon skorað 22 stig.

Trúlega voru Þórsarar orðnir full öruggir með sig þegar þeir mættu til leiks í síðari hálfleik og á sama tíma lögðu gestirnir allt í sölurnar til að freista þess að saxa á forskot Þórs. Þórsarar slökuðu á og gestirnir náðu að saxa á forskotið og unnu leikhlutann með ellefu stigum 15-26 og höfðu komið muninum niður í 18 stig þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst.

 

Þórsarar byrjuðu lokakaflann vel og tóku aftur að bæta í forskotið og þegar um tvær mínútur lifðu leiks var forskotið 22 stig 98-76.  En á tveimur síðustu mínútunum skoruðu gestirnir 2-9 og munurinn á liðunum þegar upp var staðið 15 stig 100-85.

 

Tindastóll veitti Þórsurum aldrei þá keppni sem flestir bjuggust við og vonuðust eftir. Þeir komust aldrei í takt við leikinn og áttu engin svör við frábærum leik Þórs.

 

Eins og áður segir var George Beamon frábær í kvöld og skoraði 33 stig og tók 6 fráköst. Hann var valinn maður leiksins. Darrel Lewis var með 17 stig. Ingvi Rafn var með 15 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar, Tryggvi Snær 15 stig 7 fráköst, Danero Thomas 9 stig, Þröstur Leó 6, Ragnar Helgi 3 og þeir Sindri Davíðsson og Svavar Sigurðarson 1 stig hvor.

 

Hjá Tindastóli var Antonio Hester með 21 stig og 16 fráköst, Cristopher Caird 18 stig, Helgi Margeirsson 12, Viðar Ágústsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson 9 stig hvor, Helgi Rafn Viggósson 5, Pétur Rúnar Birgisson og Svavar Atli Birgisson 4 stig hvor og Hannes Ingi Másson 3.

 

Stuðningsmenn beggja liða voru hreint út sagt frábærir, þeir héldu uppi stórkostlegri stemmningu í höllinni allt frá fyrstu mínútu til enda. Stuðningsmenn gestanna voru flottir, þeir gáfust aldrei upp þótt brekkan í kvöld væri brött og stóðu með sínum mönnum.

Staðan í deildinni nú er sú að Þór er komið í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig en Tindastóll er nú í þriðja sætinu með 18 stig

 

Gangur leiks: (32-14) – (31-20) – (15-26) – (22-25) = 100-85

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Páll Jóhannesson

 

Viðtöl: