Kristinn Marínósson leikmaður ÍR meiddist illa í leiknum gegn Snæfell í Dominos deild karla í síðustu umferð. Hann fékk þá högg á hnéð svo hann lág mjög kvalinn eftir á vellinum. Nú er ljóst að meiðslin eru nokkuð alvarleg og munu halda honum frá körfubolta í nærri tvo mánuði. 

 

Eins og fram kom í byrjun viku taldi Kristinn sjálfur að hann væri óbrotinn en nú hefur annað komið í ljós. Eftir myndatöku í vikunni kom í ljós að Kristinn er fótbrotinn. Í samtali við Karfan.is í dag sagði Kristinn að hann hefði ekki trúað því að meiðslin væru að þessu tagi: „Ég fékk smá bakhrindingu og lennti hrikalega með fótinn en trúði ekki að ég væri brotinn.“

 

Kristinn sem kom til liðs við ÍR frá Haukum í sumar er með 4,8 stig og 3,4 fráköst að meðaltali í leik fyrir ÍR á tímabilinu og hefur verið byrjunarliðsmaður í meirihluta leikja sem hann hefur spilað. Hann hefur átt við nokkur meiðsli að stríða í gegnum tímabilið og því mikið áfall fyrir liðið ef meiðslin reynast alvarleg. ÍR er í 9. sæti deildarinnar eftir frábæran sigur á Stjörnunni í gærkvöldi.

 

 

Ljóst er að Kristinn verður ekki með ÍR á næstunni en líklegt er að hann verði í 5-8 vikur frá. 

 

„Ég tek bara eina viku í einu og reyni að koma til baka sem fyrst, mun gera allt til að vera 100% í úrslitakeppninni. Þetta er djöfullegt, varla misst leik i 3 ár með Haukum svo endalaus meiðsli núna“ sagði Kristinn Marínósson handviss um að ÍR yrði meðal liða í úrslitakeppninni.