Undirritaður mættur á leik Grindavíkur og KR í Dominosdeildinni sem penni Karfan.is, í fyrsta sinn á þessu tímabili.  Mun skrifa þetta á minn hátt.   Nett vonbrigði með mætingu heimamanna en stjórn kkd. Umfg ákvað að allur aðgangseyrir myndi renna til fjölskyldu Ölmu Þallar Ólafsdóttur sem lést á sorglegan hátt í bílslysi í síðustu viku.

 

Leikurinn byrjaði í járnum og skiptust liðin á að hafa forystu.  KR-ingar rifu sig svo aðeins frá heimamönnum og komu sér í 7-15 forystu og tæpar 3 mínútur eftir af fyrsta leikhluta.  Heimamenn réðu illa við Kana KR-inga, Cedric Bowen sem var kominn með 9 stig eftir fyrsta leikhluta en Lewis Clinch tók góða syrpu undin lokin og einungis 4. stiga munur eftir opnunarfjórðunginn, 16-20.

 

Grindvíkingar komu sterkir til leiks í 2. leikhluta og eftir flottan þrist frá Þorsteini Finnboga þá tók Finnur þjálfari KR leikhlé, staðan 21-22.  Þorsteinn bætti svo við körfu og Grindvíkingar komnir yfir og augnablikið með þeim en KR-ingar með Jón Arnór í broddi fylkingar náðu yfirhöndinni á ný og komust í 26-30.  Þá tók Jóhann leikhlé og heimamenn réttu sinn hlut og vel það því Clinch braust í gegn og tróð í andlitið á Pavel og vildu sumir fá villu að auki.  KR-ingar eru engir aukvisar í sportinu og komust strax á beinu brautina eftir þetta áhlaup Grindvíkinga og komu sér aftur í ökumannssætið en heimamenn settu lokakörfuna fyrir hálfleik og staðan 32-36.  Ekki mikið stigaskor sem útskýrist væntanlega af góðri vörn beggja liða.  Ef áfram heldur sem horfir má búast við að í uppsiglingu sé naglbítur!

 

Stigahæstu menn áfram Kanar liðanna, Cedric með 13 stig og Clinch 11.

 

Sami barningur var í byrjun seinni hálfleiks, KR aðeins yfir en Grindvíkingar komust svo yfir með vítum Clinch eftir óíþróttamannslega villu Pavels, hver veit nema ennþá hafi soðið á honum eftir að Clinch tróð í grímuna á honum…..  Eftir enn eina körfu heimamanna tók Finnur leikhlé, 42-39 fyrir heimamenn.  Sama barátta var út 3. fjórðunginn, heimamenn skrefi á undan og löbbuðu inn í lokabardagann með 3. stiga forskot, 54-51.  Grindvíkingar héldu Cedric stigalausum í fjóðungnum en hann spilaði svo sem lítið sem er skrýtið enda bara með 1 villu.  Hinn bráðefnilegi Þórir dró einna helst vagninn og var kominn með 10 stig.  Hjá heimamönnum var Clinch áfram atkvæðamestur, kominn með 17 stig en bæði Dagur og Þorsteinn mjög sterkir líka.

 

Þorsteinn opnaði svo 4. leikhluta með skoti þar sem hann tyllti litlu tá á 3-stiga línuna og því bara 2 stig gefin.  Öll stemning með Grindvíkingum og þeir fljótlega komnir með 7 stiga forystu, 58-51.   Þessi yndislega íþrótt er svo stórkostleg!  Nokkrum andartökum seinna voru komnir 3 þristar frá KR-ingum!  Staðan 61-62 fyrir KR og allt á suðupunkti, rúmar 6 mínútur eftir.  Þegar 1:50 voru eftir af leiknum kom Cedric KR í 70-75 en Clinch svaraði, 72-75.  Spennan rafmögnuð!  Jón Arnór tók ótímabært 3. stiga skot í næstu sókn sem geigaði og Clinch fór á línuna eftir brot landa síns og setti bæði víti niður, 74-75.  Pavel skaut svo „air-ball“ og Clinch braust í gegn og skoraði en með hreinum ólíkindum að ekki skyldi vera dæmd villa!  Þórir fékk svo opið 3. stiga skot í horninu sem hann setti beint ofan í!  Jóhann tók leikhlé, 27 sekúndur eftir og KR yfir 76-78.  Clinch fór flott í gegn og fann fyrirliðann Þorleif sem setti auðveld 2 stig niður.  78-78 og KR tók leikhlé og KR væntanlega með lokasóknina, rúmar 16 sekúndur eftir, ÚFF!!!  Taflan sagði að Grindvíkingar væru einungis komnir með 3 villur og því braut Dagur viturlega á Þóri þegar ca 5 sekúndur voru eftir.  KR tóku aftur leikhlé en í því miður kom Rögnvaldur dómari til Jóhanns og tilkynnti honum frekar hundslegur að KR væri komið í bónus!!!  Þórir setti bæði víti niður og Grindavík tók lokaleikhléið…….   Góð flétta og Ólafur komst upp að körfu en hitti því miður ekki og meiddi sig í lendingunni en ekki talið að um alvarleg meiðsl sé að ræða.  KR-sigur í miklum spennuleik.

 

Lewis Clinch var besti maður vallarins í kvöld, setti 31 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.  Hann átti körfu kvöldsins eins og áður hefur komið fram.  Hann er einfaldlega svakalega góður leikmaður þegar sá gállinn er á honum.  Hann á alltaf að vera eins áræðinn og hann var í þessum leik en stundum hefur manni fundist hann detta aðeins niður í meðalmennskuna.  Dagur og Þorsteinn komu næstir í stigaskoruninni, Dagur með 13 stig og Þorsteinn með 10.   Ólafur Ólafs var duglegastur að rífa niður fráköst heimamanna, með 11.

 

Hjá KR dreifðist stigaskorið betur en hinn ungi og bráðefnilega Þórir Guðmundsson var stigahæstur með 17 stig og setti mjög mikilvægan þrist undir lokin þegar hann kom KR yfir, 76-78.   Þór gaf auk þess 5 stoðsendingar.  Brynjar sem sneri sig á ökkla í lokin var með 16 stig og Cedric með 15.  Pavel var duglegastur KR-inga í að rífa niður fráköst, 9 talsins.

 

Texti: S.Dagbjarts
Mynd: SbS