Þá er komið að því að gera upp körfuboltaárið 2016. Í mörg horn er að líta en við skulum sjá hvað viðmælendum okkar fannst eftirminnilegast á árinu. Hjá langflestum var rauði þráðurinn að Ísland komst í lokamót Evrópukeppni karlalandsliða annað skiptið í röð.

 

Þórður Helgi Þórðarson, útvarpsmaður Rás 2: 
Það er að sjáfsögðu endurför fallegu drengjanna okkar á Eurobasket. Verð að viðurkenna að ég taldi möguleikann farin út um gluggann eftir tap gegn Sviss, sá þá ekki vinna Belga. En þessi leikur gegn Belgum er með því betra sem ég hef séð, óháð árum. Það stóð hinsvegar niður úr í boltanum á árinu þegar ég sá 76ers loxxins hjá Beckmanninum og hvað liðið er ótrúlega leiðinlega lélegt.

Hörður Axel Vilhjálmsson, Keflavík/Karlalandslið Íslands 
Að komast aftur inná EuroBasket stendur uppúr öllu öðru og stuðningurinn sem landsliðið fékk í leikjunum.
 

Gunnhildur Gunnarsdóttir, Snæfell/ Kvennalandslið Íslands: 
Bikarmeistarartitillinn með Snæfell, sigurinn á Ungverjum í febrúar, Íslandsmeistaratitillinn í apríl og sigurinn á Portúgal í nóvember.
Eg gat ekki valið 🙂

Ólafur Ólafsson, Grindavík/Karlalandslið Íslands 
Það sem stendur upp úr er að tryggja okkur á EM annað skiptið í röð. 

Jakob Örn Sigurðarson, Boras Basket 
Það sem mér fannst helst standa upp úr er landsleikurinn gegn Belgíu þar sem var tryggt sæti á EuroBasket 2017! Síðan var úrslitaserían milli Snæfells og Hauka sem fór í oddaleik alveg mögnuð. Karlamegin fannst mér úrslitakeppnin frábær eins og síðustu ár en einvígið milli KR og Njarðvíkur var geggjað! 

Guðjón M. Þorsteinsson, meðstjórnandi í stjórn KKÍ: 
Körfuboltakvöld Stöðvar 2 og auðvitað árangur landsliða KKÍ.

 

Sveinbjörn Claessen, leikmaður ÍR: 
 
Stórgott körfuboltaár að baki þar sem nokkur atriði standa upp úr. Fyrst ber að nefna árangur landsliðsins, að komast á EuroBasket í annað skipti í röð. Þessir drengir eiga sannarlega lof skilið fyrir það afrek. Það verður gaman í Helsinki í september nk. Alveg klárt.  
 
Annað sem vert er að minnast á sem hápunkt ársins hlýtur að vera heimkoma Hlyns og Jóns. Ekki þarf að fjölyrða um þau áhrif sem þeir hafa á leik sinna liða, eða koma til með að hafa í tilviki Jóns.  
 
Þriðja atriðið sem ekki verður hjá því komist að nefna er húðflúr Birgis Lúðvíkssonar, fyrirliða annarrar deildar liðs ÍB (Íþróttafélags Breiðholts). Það er athyglisvert, ekki síst fyrir þær sakir að enginn skilur hvað það táknar. Ekki einu sinni hann sjálfur. Fer honum samt vel. 
 
Fyrir mig persónulega og okkur ÍR-inga hlýtur að standa upp úr Íslandsmeistaratitill drengjaflokks í vor og fjöldi drengja í landsliðinu í vor/sumar/nú í vetur. Við erum stoltir og ánægðir með þróun mála. Þeir eru að uppskera eins og þeir sáðu. Framtíðin er þeirra. 
 
Talandi um liðið mitt, stuðningsmenn ársins? Einfalt, Ghetto Hooligans. Á því liggur enginn vafi.  
 
Að síðustu gleður hversu vel strákarnir í útlöndum eru að standa sig. Án þess að gera á hlut neins vil ég sérstaklega minnast á spilamennsku þeirra Kára og Jóns Axels í háskólaboltanum og Martins í Frakklandi. Þeir eru að gera e-ð rétt þessir drengir.  
 
Viðburðarríkt ár að baki og spennandi ár handan við hornið. Takk fyrir mig. Áfram körfubolti!"

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals: 
Sigur Íslands á Belgíu og að A-landsliðið sé aftur komið á EM.
 

Ragnar Ágúst Nathanaelsson, Caceres á Spáni/ Karlalandslið Íslands: 
Fyrir mig persónulega var það að vera partur af liði Þórs Þorlákshafnar þegar við spiluðum úrslitaleikinn í Lengjubikarnum. Einnig hversu margir af okkur erum að spila erlendis, skóla eða atvinnumennsku. Frábært fyrir boltann heima að sjá svona marga spila út fyrir landsteinana. Svo auðvitað að komast á EuroBasket annað árið í röð. 

Baldur Þór Ragnarsson, leikmaður og aðstoðarþjálfari Þórs Þ.: 
Það sem mér fannst standa uppúr var frábær árangur A landsliðs karla. Það að komast aftur á lokamót er glæsilegur árangur. Einnig að U20 lið karla hafi komist í A deild var líka frábært og var gaman að vera partur af því verkefni. 
 

Logi Gunnarsson, leikmaður UMFN/ Karlalandslið Íslands: 
Það er klárlega að ná að komast á EuroBasket annað skiptið í röð. Svakalegt afrek og ef einhver hefði sagt mér að við myndum gera það tvisvar í röð þegar ég byrjaði með landsliðinu árið 2000 þá hefði ég hlegið af þeim. Einnig að vinna sterkt lið Belga heima til að tryggja okkur inn var enn betra en þegar við fórum síðast. Það voru margir í Evrópu sem héldu að þetta hefði verið algjör "grís" þegar við komumst til Berlínar þannig að þetta var ákveðin staðfesting á hversu langt við erum komnir eftir margra ára vinnu. 

Sveinn Birkir Björnsson, körfuknattleiksáhugamaður: 
Að fá alla þessa atvinnumenn heim í íslensku deildina. Ómetanlegt fyrir boltann. Og snúa aftur á EM. Stemmingin í höllinni var bara rugl, sko. 
 

Bryndís Gunnlaugsdóttir, stjórnarmaður hjá KKÍ og Stjörnunni: 
Körfuboltaárið 2016 var virkilega gott. A-landslið kvenna vann góða sigra á árinu og A-landslið karla tryggði sig inn á EM. U20 ára landslið karla vann sig upp í A riðil á EM og u18 ára landslið kvenna náði frábærum árangri er þær lentu í 4.sæti í B riðli EM. 
 
Á Íslandi var gaman að fylgjast með KR og Snæfell vinna þriðja árið í röð. Þetta tímabil sem nú er hálfnað fer einnig vel af stað, reynsluboltar komnir aftur heim karlamegin meðan ungu stelpurnar úr Keflavík hafa virkilega látið ljós sitt skína í kvennadeildinni. 
 
Það má því segja að árið 2016 hafi verið frábært körfuboltaár og ég hlakka til ársins 2017 og er viss um að körfuknattleikshreyfingin mun saman vinna að enn frekari framförum og árangri.

Baldur Beck, Ritstjóri NBA Ísland/Stöð 2 Sport:

Ég er kannski dálítið sérstakur með það að ég held ekki með neinum ákveðnum liðum í körfunnin hér heima en ég á mér mína uppáhalds leikmenn og það ræður því oft frekar hvaða leiki ég fer að sjá. Hlynur Bæringsson hefur þannig alltaf verið leikmaður sem ég held gríðarlega mikið upp á og þess vegna er endurkoma hans í boltann hér heima eitt af því sem stendur upp úr hjá mér á árinu. Það skemmir svo auðvitað ekki fyrir hvað hann er búinn að spila rosalega vel fyrir Stjörnuna og ég held að hann eigi eftir að reynast þeim enn betur sóknarlega þegar þeir verða búnir að slípa sig betur saman í vor.

Hjá stelpunum er það manni auðvitað í ferskustu minni hvað Keflavíkurliðið hans Sverris er búið að koma skemmtilega á óvart og það er gaman að sjá hvað þetta unga lið endurspeglar dálítið karakter þjálfarans úti á vellinum. Þess vegna þótti mér líka gaman að sjá hvað Emelía Ósk Gunnarsdóttir sópaði til sín verðlaunum í jólaþætti Körfuboltakvölds um daginn.

Annars held ég að maður geti bara sagt að það sem standi upp úr á árinu sé hvað við eigum orðið mikið af frábæru körfuboltafólki sem er að gera það gott á erlendri grundu. Sérstaklega finnst mér gaman að sjá hvað þeir Kári Jónsson, Jón Axel Guðmundsson og auðvitað Martin Hermannsson eru búnir að standa sig frábærlega. Þessir strákar eru engir guttar lengur, þetta eru að verða alvöru körfuboltamenn.

Ef ég tek NBA deildina með, stendur það klárlega upp úr á árinu að Cleveland skuli loksins hafa náð að vinna titilinn, sem í sjálfu sér rímaði ágætlega við sigur Leicester í ensku úrvalsdeildinni og undirstrikaði stórfurðulegt ár í boltanum. Það sem einkennir NBA deildina árið 2016 er hvað hún hýsir óvenju marga leikmenn sem eru að gera hluti sem við höfum aldrei séð áður, sem kristallast ef til vill í því að Russell Westbrook skuli vera með þrefalda tvennu að meðaltali í leik um áramótin.
 

Hildur Sigurðardóttir þjálfari Breiðabliks og fyrrum landsliðskona.

Það sem stendur upp úr er lið Snæfells sem náði að landa Íslandsmeistaratitlinum í þriðja sinn í röð og bæta bikarnum við. Fyrir tímabilið var þeim spáð fimmta sætið.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður U18 ára liðs Íslands og KR:
Árið 2016 hefur verið virkilega gott körfuboltaár og ber helst að nefna árangur A-landsliðs karla sem tryggði sér sæti á lokakeppni Evrópumótsins annað sinn í röð. U-20 ára landsliðið tryggði sér líka sæti í A deild á næsta ári með frábæru móti á Grikklandi í sumar. Persónulega hefur þetta verið mitt besta körfuboltaár hingað til og það sem stendur mest uppúr eru Íslands- og bikarmeistaratitill með KR og að sigra Norðurlandamótið með U-18.
 

Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR og íslenska A landsliðsins:

Það eru þrír hlutir sem standa uppúr að mínu mati.

1. Að vinna titilinn þriðja árið í röð.

2. Komast á EuroBasket annað skiptið í röð.

3. Erlendis var það að mínu mati úrslit vesturstrandarinnar og sjálf lokaúrslitin. Ég sat límdur við skjáinn alla þessa 14 leiki og það að hafa séð leik 6 hjá Klay Thompson og blokkið hjá LeBron gerir þessa leiki einstaklega eftirminnilega"

Þröstur Leó Jóhannsson, leikmaður Þórs á Akureyri:
Farseðillinn til Helsinki, Garðar Örn Arnarson og Hössi vinur minn heim, ekki heim, heim, ekki heim, heim.

 

 

Hannibal Hauksson stjórnarmaður körfuknattleiksdeildar ÍA

Árið 2016 fannst mér vera glæsilegt körfuboltaár. Glæsilegt.
Að vera í kringum körfuboltann þessi misserin er eitthvað lengsta partý sem ég hef farið í, og hef ég farið í þau nokkur. Ég á mér þann galla að fara ekki úr partýum á meðan mér finnst gaman og ég sé engin tign á lofti um að ég sé að fara úr þessu partýi næstum því strax. Ég er semsagt ekki kominn heim.
2016 voru það landsliðin okkar sem mér fannst skemmtilegust, árangur yngri liðanna var glæsilegur og það gladdi mig að sjá stelpurnar okkar vinna Portúgal í síðasta landsleik sínum þetta árið.
Svo voru það heimaleikirnir þrír hjá karlalandsliðinu. Kýpur og Sviss voru flottir og svo var Belgía leikurinn toppurinn. Miðinn á EuroBasket í Helsinki tryggður. Glæsilegt. Glæsilegt. Maður er nú bara rétt ný kominn frá Berlín…
Ef ég tek þetta saman í eitt orð þà er hápunktur 2016 hjá mér í einu orði Takk. Ég er að reima á mig dansskóna því körfuboltapartýið heldur áfram 2017.

 

 

 

Tryggvi Snær Hlinason leikmaður Þór Ak og landsliðsins

 

Hjá mér persónulega var stærsta augnablikið hjá mér þegar við í U20 unnum Grikkina og komum okkur í úrslit mótsins. Þá verð ég að segja að það sem stendur uppúr hjá mér er auðvitað þegar landsliðið komst á EuroBasket aftur sem er almennt það stærsta á árinu.

 

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir leikmaður KR og fyrrum Íslandsmeistari

Það sem mér fannst standa upp úr var að karlalandsliðið skyldi tryggja sig aftur á EM. Einnig að bæði KR og Snæfell yrðu meistarar í 3. skiptið i röð.

Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ

Það eru nokkrir:
Sigur A-landsliðs kvenna á Ungverjum
Þegar strákarnir komust áfram á EM í annað sinn
Að U-20 karla skildi komast í A-deild í Evrópukeppninni
Stækkun afrekssjóðs í 400 milljónir á næstu 3 árum
 

Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður á RÚV

Hér heima er auðvelt að nefna glæsilegan árangur íslenska karlalandsliðsins sem eiga vonandi eftir að gefa okkur góðar stundir á EuroBasket næsta sumar þrátt fyrir að hafa lent í erfiðum riðli. Mínir menn í Tindastól voru hársbreidd frá Íslandsmeistaratitli ef þeim hefði tekist að vinna Hauka og KR í úrslitakeppninni.
Fyrir utan landsteinana er svo auðvitað hægt að benda á ótrúlegan viðsnúning Cavaliers liðsins í úrslitakeppni NBA og ég á það til á kvöldin að kveikja á kertaljósum, láta renna í bað og setja á myndband af því þegar LeBron James blokkaði André Igoudala í döðlur í game 7, snýst mikið um að njóta. Sem mikill Dwight Howard maður hafa undanfarin tímabil verið erfið, vagninn hefur lent í alls konar óveðrum en áfram held ég að ýta honum áfram og hann sprettur úr spori í Atlanta, er viss um það.
Að lokum er það svo Martin Hermannsson góðvinur minn sem hefur verið að gera ótrúlega hluti hvort sem það var í LSU, með landsliðinu eða með félagsliði sinu Mezeieres. Stórkostlegur leikmaður sem á eftir að ná ansi langt, NBA eftir 2-3 ár max.

 

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður Skallagríms og íslenska landsliðsins

 

Hjá mér er það þegar kvennalandsliðið vann óvæntan sigur á Ungverjalandi og strákarnir komast aftur á EuroBasket. Persónulega var það þegar ég skrifaði undir við mitt uppeldisfélag, Skallagrím, spila með báðum systrum minum og hef fjölskylduna í kringum mig.
 

Helena Sverrisdóttir aðstoðarþjálfari Hauka og leikmaður

Það er kannski erfitt að taka úr, en þetta var ansi gott landsliðsár.
Byrjaði í febrúar með risa stóra sigrinum okkar í kvennaliðinu gegn Ungverjalandi. Síðan auðvitað í haust þegar strákarnir tryggðu sér aftur sæti á EM. Og til að toppa árið að kvennaliðið náði öðrum heimasigri og þar með að vinna okkur upp um styrkleikaflokk.
Finnst þessir hlutir standa mest uppúr, þó svo að það sé erfitt að sleppa því að minnast á hvað college krakkarnir okkar eru að standa sig vel,

 

Lovísa Björt Henningsdóttir leikmaður Marist
Varðandi okkar körfubolta heima þá finnst mer árangur kvenna og karla landsliða Íslands hafa verið frábær og gaman að sja hvað landsliðin okkar eru að verða sterk og komast í sterkar keppnir innan Evrópu boltans. Hjá mér persónulega stóð upp úr að eg er núna á öðru ári í Marist College og hef verið að fa miklu stærra hlutverk en áður og byrjað inná í öllum leikjum liðsins á þessu tímabili.

 

Sævaldur Bjarnason, þjálfari Fjölnis:

Mér fannst standa uppúr á þessu ári frábært ár hjá landsliðum okkar bæði yngri flokka liðunum sem karla og kvennaliðinu, Karlaliðið tryggði sér réttinn á Eurobasket aftur eftir glæsilegan sigur á Belgum í stútfullri Laugardalshöll, þar sem þeim tókst annað skiptið í röð að tryggja sig inn. Það er auðvitað algjörlega frábær niðurstaða og verður mjög áhugavert að sjá hvernig þeim gengur í feykisterkum riðli í Finnlandi næsta haust. Einnig er frábært að kvennalandsliðið hafi náð að hækka sig upp um styrkleikalista þrátt fyrir forföll margra lykilleikmanna. Árangur 20 ára liðs karla var síðan auðvitað ekkert slor þegar þeim tókst að tryggja sér A-deildarsæti í sumar. U18 ára kvenna var svo hársbreidd frá því að gera slíkt hið sama en náðu engu að síður frábærum árangri í sinni keppni. Þetta er auðvitað frábær viðurkenning félaganna sjálfra á landinu og grasrótinni sem leggja sitt af mörkum á hverjum einasta degi til þess að hjálpa þessum einstaklingum okkar að þroskast og verða þessir gæðaleikmenn og einstaklingar sem þeir eru.

Þetta finnst mér standa uppúr á körfuboltaárinu, karfan hefur verið í stöðugri sókn hér á landi og er það frábært að sjá okkar frambærilegu lið og leikmenn standa sig svona vel á alþjóðavettvangi. Maður er stoltur og ánægður að fá að starfa í þessu jákvæða, metnaðarfulla andrúmslofti bæði í héraði sem og á landsvísu.
Óska öllum körfuboltaunnendum sem og landsmönnum gleðilegs nýs árs með þökkum fyrir það gamla

Áfram Karfa

 

Emil Barja, leikmaður Hauka:
Persónulega fannst mér gengi okkar Hauka í úrslitakeppninni í fyrra og stuðningurinn frá Hauka-Maníunni standa upp úr og móment ársins fyrir mér er buzzer skotið hans Finns á móti KR í úrslitunum.

 

Erla Reynisdóttir fyrrum leikmaður Keflavíkur og kvennalandsliðsins:
EM farseðillinn, Hlynur og Jón Arnór komnir heim og svo auðvitað stórglæsilegur árangur kvennaliðs Keflavíkur á síðustu mánuðum.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, aðstoðarþjálfari A landsliðs karla og þjálfari U20 liðs drengja:
Árangur U20 karlaliðsins á EM, að vinna Grikki á þeirra heimavelli og tryggja sér í sæti í A deildinni næsta sumar.