Keflavík heldur sig við toppsæti Dominos deildar kvenna eftir sigur í spennuleik gegn Haukum í kvöld. Haukar sem eru í sjöunda sæti deildarinnar hafa verið að komast í gír aftur eftir dapurt gengi fyrir áramót og gáfu Keflavíkingum alvöru leik í kvöld. Úrslitin réðust á lokasekúndunum og náði hið unga lið Keflavíkur í karakter sigur. 

 

Þáttaskil

 

Haukar höfðu forystuna framan af leik en leikur beggja liða var mjög kaflaskiptur. Í þriðja leikhluta small pressuvörn Keflavíkur saman og á augabragði var Keflavík búið að stela helling af boltum og búa til einföld stig. Á tveggja mínúta kafla var munurinn orðinn 13 stig og Keflavík virtist ætla að sigla sigrinum örugglega heim á endanum. 

 

Hafnfirðingar voru ekki á þeim buxunum að leggjast í gólfið og gefast upp. Tvær þriggja stiga körfur frá Sólrúnu Ingu á lokamínútunni minnkuðu muninn í tvö stig þegar 27 stig voru eftir. Þá braut Brezzy Williams á Emelíu Ósk á leið í sókn, ekki nóg með það heldur dæmdi dómari leiksins verulega ósanngjarna óíþróttamannslega villu. Dómarar leiksins áttu heilt yfir góðan leik en það var dapurt að sjá þá klára leikinn með þessari ákvörðun. Við þennan dóm flugu möguleikar Hauka á að stela sigrinum í lokinn útum gluggann. Þær gerðu sitt besta undir lokinn en Keflavík sýndi mikil gæði að klára leikinn. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar gjörsamlega rústa frákastabaráttu kvöldsins með 55 fráköst gegn 37 hja Keflavík. Aftur á móti tapa Haukarnir 24 boltum í leiknum sem reyndist á endanum rándýrt því Keflavík tók heil 16 stig úr hraðaupphlaupum. Einnig fékk Keflavík meira frá bekknum sínum. 

 

Hetjan

Emelía Ósk Gunnarsdóttir átti frábæran leik fyrir Keflavík í kvöld. Hún endaði með 23 stig, 5 fráköst, 6 stolna bolta og spilaði algjörlega fyrirmyndar vörn á lið Hauka. Arianna Moorer var einnig sterk með 19 stig og 15 fráköst en hún tók full mörg skot og skotnýtingin ekki frábær. Hjá Haukum var Bezzy Williams með 21 stig og 19 fráköst og virðist hún ætla að vera góð viðbót fyrir lið hafnfirðinga. 

 

 

Kjarninn

Keflavík er enn i efsta sæti deildarinnar og er nú að sýna það að þær geta líka unnið jafna leiki. Í allan vetur hefur liðið fengið gríðarlegt hrós fyrir að vera ungt og efnilegt lið en í sigrinum í kvöld sýndi liðið að það búa gæði í því. Þrátt fyrir að eiga ekki frábæran leik og augnablikið virtist með Haukum framan af leik þá voru þær alltaf skrefinu fyrir aftan. Gæði liðsins komu svo fram þegar liðið þurfti og knúðu þær fram sigur. Keflavík er verðskuldað í efsta sæti deildarinnar og er eins og staðan er núna heilsteyptasta lið deildarinnar. 

 

Keflavík tekið þennan sigur fegins hendi því Haukar voru allt annað en auðveldir andstæðingar. Sjálfstraustið er um það bil hundrað sinnum meira í þessum leik heldur enn í leikjum liðsins fyrir áramót. Sóknarleikurinn er heilt yfir fínn og eru leikmenn óhræddir við að keyra að körfunni og splúndra vörn andstæðingsins. Innkona Þóru Kristínar virðist gera liðinu mjög gott, hún stjórnar liðinu og tekur mikið til sín. Haukar þurfa ekki að kvíða fyrir næstu umferðum og alveg ljóst að þær munu stríða öllum liðum þar til úrslitakeppnin hefst. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn leiksins

 

Viðtöl við þjálfari liðanna eftir leikinn

 

 

 

Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson