Snæfell sigraði Keflavík í 14. umferð Dominos deildar kvenna með 66 stigum gegn 73. Eftir leikinn er Keflavík því enn í 1. sætinu, 2 stigum á undan Skallagrím og Snæfell í 2.-3. sætinu.

 

Engin Pálína

Leikmaður Snæfells, Pálína Gunnlaugsdóttir, tilkynnti það fyrir helgina að hún sé farin í ótímabundið leyfi. Þrátt fyrir að hún hafi verið meidd síðustu leiki fyrir hátíðirnar og að hún hafi aðeins leikið með því frá síðasta vori, er ljóst að um blóðtöku fyrir hóp þeirra er að ræða. Á 20 mínútum að meðaltali í leik var hún að skila 10 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum.

 

Brösug byrjun

Erlendur leikmaður Keflavíkur, Ariana Moorer, byrjaði leikinn frekar brösulega. Skorar fyrstu körfuna áður en að hún svo snéri sig í næstu sókn. Í fyrstu leit út fyrir að hún hefði lokið leik, en undir lok leikhlutans kemur hún þó aftur inn á. Er frekar hæg í gang, en um leið og hún virtist vera að ná sér að fullu fer lið Keflavíkur að skera á forystu gestanna. Mikið hefur verið rætt um gæði íslensku leikmanna Keflavíkurliðsins, sem eru vissulega miklir, en af þessu að dæma er Moorer þeim einnig einkar mikilvæg.

 

 

Stuðningssveitin

Trommusveitin í Keflavík virðist ætla að halda uppteknum hætti. Sem er gott. Sungu fyrir helgina afmælissönginn fyrir leikmann Keflavíkur, Davíð Pál Hermannsson, í hálfleik grannaglímunnar gegn Njarðvík. Í dag var það leikmaður Keflavíkur, Elsa Albertsdóttir, sem átti afmæli og að sjálfsögðu fékk hún sönginn góða í hálfleik. Mjög skemmtilegt.

 

 

Villuvandræði

Körfuknattleikskona ársins árið 2016, Gunnhildur Gunnarsdóttir náði lítið að beita sér í leik kvöldsins vegna villuvandræða. Vissulega góð á meðan að hún var inni á vellinum, en snemma í 3. leikhlutanum var hún búin að næla sér í sína 4. villu. Náði því alveg örugglega ekki að beita sér eins og hún er vön það sem eftir lifði leiks.

 

 

Lokametrarnir

Þegar um 5 mínútur voru eftir nær Snæfell að slíta sig eilítið frá heimastúlkum með þriggja stiga sókn frá Aaryn Ellenberg Wiley, 52-57. Þennan mun nær Keflavík að vinna niður og komast svo loks aftur yfir 59-57 með laglegum þrist frá Ariana Moorer. Við það forskot bæta þær aðeins og eru mest komnar 5 stigum yfir á þessum lokakafla.

 

Þegar um mínúta er eftir skorar Aaryn annan langan þrist fyrir Snæfell og minnkar muninn niður í 1 stig, 62-61. Keflavík fer þá í lengstu sókn leiksins, sem að svo á endanum ekkert verður úr. Snæfell fær þá boltann aftur með rúmar 13 sekúndur eftir af leiknum.

 

Þá fer Aaryn aftur af stað og nær með klókindum að losa sig frá Emelíu Ósk Gunnarsdóttur og setja niður stutt skot og koma sínum stúlkum aftur yfir 62-63 með tæpar 4 sekúndur eftir af leiknum.

 

Snæfell með tvær villur að gefa brjóta hratt eftir að Keflavík tekur boltann inn. Keflavík fær annað innkast og þá brýtur Andrea Björt Ólafsdóttir á Ariana Moorer í þriggja stiga skoti. Ariana fer á línuna og nýtir aðeins eitt þeirra þriggja skota sem hún fær. Leikurinn þar með framlengdur.

 

Í framlengingunni var Snæfell svo betri aðilinn og fór svo að lokum að þær sigldu 8 stiga, 66-73, sigri í hús.

 

Kjarninn

Heilt yfir var þetta spennandi leikur frá byrjun til enda. Mikilvægur fyrir Keflavík fyrir þær sakir að sanna fyrir sjálfum sér og áhorfendum að þær eigi roð í þetta eina lið sem að þær hafa ekki unnið í vetur. Fyrir Snæfell mikilvægur að því leyti að halda sér í baráttunni við topp deildarinnar, hefði verið erfitt fyrir þessa meistara síðustu þriggja ára að vera eftir leikinn kannski komnar í 3. sætið, 6 stigum á eftir toppliðinu.

 

Snæfell stóðst þetta próf betur í dag. Voru betri þegar að það skipti máli. Mætti svosem líka segja að Keflavík hafi kastað þessu frá sér undir lok venjulegs leiktíma með misnotuðum vítum. Hvernig sem litið er á þennan leik er ljóst að mætist þessi tvö lið (gerum fastlega ráð fyrir því) í undanúrslitum, eða jafnvel úrslitunum, verður það, miðað við þennan leik, hrikalega skemmtilegt einvígi.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Í raun og verunni er ekki mikið í tölfræðinni úr þessum leik sem að vísar á sigur Snæfells. Þær voru þó með mun betri nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna heldur en heimastúlkur, 7/25 (28%) nýtingu á móti 3/38 (11%) hjá Keflavík.

 

Maður leiksins

Leikmaður Snæfells, Aaryn Ellenberg-Wiley, var virkilega góð í dag. Skoraði 31 stig og tók 10 fráköst á rúmum 44 mínútum spiluðum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir / SBS