Keflavík sigraði Njarðvík fyrr í kvöld á heimavelli sínum í TM Höllinni með 80 stigum gegn 73. Eftir leikinn færist Keflavík því upp í 5.-7. sæti deildarinnar á meðan að Njarðvík er enn við botn hennar í 10.-11. sæti.

 

Sigur Keflavíkur var sá þriðji á Njarðvík í vetur, en áður höfðu þeir unnið þá í fyrsta leik deildarinnar í Ljónagryfjunni áður en þeir svo slógu þá út úr bikarkeppninni heima í TM Höllinni.

 

Á bekk Njarðvíkur var nýr erlendur leikmaður þeirra, Myron Dempsey, í borgaralegum klæðum, en sökum leyfis og sinnuleysi hjá Útlendingastofnun yfir hátíðirnar fékkst ekki atvinnuleyfi fyrir hann í tæka tíð fyrir leik kvöldsins. Ljóst er að hann hefði hann getað hjálpað þeim mikið, þó ekki nema hefði verið fyrir þær sakir að rífa niður fráköst og berjast við leikmann Keflavíkur, Amin Stevens, undir körfunni.

 

Hraðlestin fyrr af stað

Leikmenn Keflavíkur mættu miklu mun reiðubúnari til leiks í kvöld. Hörður Axel og Reggie fóru fyrir sínum mönnum og voru komnir með 8 stiga forystu, 12-4, strax eftir 4 mínútur af leiknum. Njarðvík voru þó snöggir að ranka við sér og þegar að fyrsti leikhlutinn var á enda var munurinn aðeins 5 stig, 25-20.

 

Einhæft

Njarðvík spilaði frekar einhæfan sóknarleik í kvöld. Að mestu virtist það aðeins vera Jeremy Atkinson og Loga Gunnarssyni fært að setja boltann í körfuna. Vissulega voru þeir báðir virkilega góðir í kvöld, en fyrir utan kannski Björn Kristjánsson líka, sem hjálpaði til þegar hann gat sóknarlega, virtist nákvæmlega ekkert annað vera að gerast. Allt varð að fara í gegnum þessa leikmenn. Að leik loknum voru það aðeins 5 leikmenn þeirra sem að náðu að setja körfur í kvöld. Logi 28, Jeremy 21, Björn 15, Jóhann Árni 7 og Jón Arnór 2 stig. Til samanburðar náðu allir leikmenn Keflavíkur (8) sem spiluðu að skora í leiknum þar sem að 6 þeirra skoruðu 5 stig eða fleiri. 

 

 

Stuðningur úr stúkunni

Margt var um manninn í Sláturhúsinu í kvöld. Bæði létu áhangendur Keflavíkur, sem og gestanna úr Njarðvík vel í sér heyra  á meðan leik stóð. Sérstaklega gaman var að sjá það að heimamenn hafa vakið trommusveit sína aftur upp frá dauðum, en þeir héldu uppi fjöri og stemmingu á löngum köflum. Sungu meðal annars afmælissönginn fyrir leikmann Keflavíkur, Davíð Pál Hermannsson, sem var skemmtilegt. Vonandi halda þeir þessu áfram.

 

 

Lægðin

Keflavík og Njarðvík eru tvö sigursælustu lið efstu deildar á Íslandi síðan að úrslitakeppnin var tekin upp á 9. áratug síðustu aldar og hafa liðin leikið ófáa toppslagina. Þar sem að gjörsamlega allt var undir, toppsætið, bikartitill í Laugardalnum eða Sindra stálið  sjálft. Aldrei áður þó hafa liðin leikið gegn hvoru öðru í þessari stöðu, þ.e. að um mitt tímabil sé annað þeirra í fallsæti og hitt það síðasta inn í úrslitakeppni. Það er leiðinlegt að segja það, en leikurinn bar það eilítið með sér lengst af. Þrjá leikhluta hans var eins og leikmenn vantaði hreinlega ástríðuna til þess að ganga frá leiknum. Það breyttist þó í síðasta leikhlutanum og undir lokin var þetta farið að líta út eins og slagurinn sem smekkfullt hús áheyrenda hafði borgað sig inn til þess að horfa á.

 

Þakkarskeyti

Leikmaður Keflavíkur, Magnús Már Traustason var frábær í kvöld. Skoraði 22 stig og tók 4 fráköst. Fyrir þá sem að ekki vita þá lék Magnús upp alla yngriflokka Njarðvíkur áður en að hann fór yfir lækinn til Keflavíkur fyrir síðasta tímabil. Eftir frammistöðu slíka og Magnús skilaði í kvöld (jafnvel oftar) ætti stjórn Keflavíkur að sjá sóma sinn í að senda þakkarskeyti yfir frekjuna fyrir virkilega gott, öflugt yngri flokka starf og ávexti þess.

 

 

Vendipunkturinn

Keflavík var yfir nánast allan leikinn. Það eru ekki ýkjur. Keflavík leiddi leikinn í 39 mínútur og 47 sekúndur af þessum 40 mínútna leik. Náðu þó aldrei almennilega að slíta sig frá gestunum úr Njarðvík. Þegar að 2 mínútur og 34 sekúndur voru eftir af leiknum virtist Njarðvík loksins vera að takast það að jafna eða komast yfir. Staðan var 72-71 þegar að Keflavík á þeim tímapunkti tekur leikhlé. Eftir það leikhlé setur Amin Stevens tvö vítaskot niður, staðan þá komin í 74-71 og þetta, rúmar, 2 mínútur eftir. Næstu 3 sóknir Njarðvíkur renna út í sandinn. Misnotuð skot og tapaðir boltar. Að lokum er það svo Magnús Már sem að ísar leikinn, þegar 30 sekúndur eru eftir, með tveimur vítaskotum, 76-71. Njarðví fer þá í sókn þar sem að Amin Stevens stelur boltanum og Jeremy Atkinson brýtur óíþróttamannslega villu af á honum, svona til þess að gjörsamlega klára þetta.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík gaf 22 stoðsendingar (Hörður Axel með 9 þeirra) á móti aðeins 9 hjá Njarðvík. Mjög lýsandi fyrir mun á sóknarleik liðanna. Þar sem að leikmenn annars liðsins virtust treysta á hvorn annan á meðan að hjá hinu var einstaklinsframtakið í hávegum haft.

 

Maður kvöldsins

Eins og í fjölmörg skipti áður lék leikmaður Keflavíkur, Amin Stevens, á alls oddi í kvöld. Skilaði 25 stigum (70% nýting í teig) og 17 fráköstum á 32 mínútum spiluðum í kvöld.

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn #1

Myndasafn#2

Myndasafn #3

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / Jón Björn & SBS

 

Viðtöl: