Meistaraflokkur karla hjá Haukum gengur illa að sækja sigra í byrjun nýs árs og hafa eingöngu unnið einn sigur í fjórum leikjum hingað til á árinu 2017. Þegar skoðaður er árangur liðsins í janúar mánuði síðustu ár má sjá að hann hefur ekki verið uppá marga fiska.
Frá því að Haukar komu aftur í úrvalsdeild árið 2013 hefur liðið einungis unnið þrjá leiki í janúar af átján. Leikirnir eru bæði í deild og bikar en Haukar hafa þrisvar fallið úr leik í bikar i janúar á þessum þrem árum.
Sigurhlutfall Hauka í janúar má sjá hér að neðan.
Árangur Hauka í deild og bikar í janúar frá 2013.
Tímabilið 2013-2014 – 1 sigur í 5 leikjum = 20% sigurhlutfall
Tímabilið 2014-2015 – engin sigur í 4 leikjum = 0% sigurhlutfall
Tímabilið 2015-2016 – 1 sigur í 5 leikjum = 20% sigurhlutfall
Tímabilið 2016-2017 – 1 sigur í 4 leikjum = 25% sigurhlutfall
Því má sjá að sigurhlutfall Hauka í janúarmánuði er 16,6% í 18 leikjum. Liðið á eftir að spila einn leik þennan janúarmánuð og er hann gegn KR í DHL-höllinni. Það ætti enginn að móðgast þegar sagt er að Haukar eru undirhundar í þeim leik og stuðull klárlega hár á þeim. Tapi Haukar þeim leik fer sigurhlutfallið undir 16% eða þrír sigrar í 19 leikjum á fjórum árum.
Það verður að teljast ansi hreint döpur tölfræði fyrir lið sem hefur verið í efstu fimm sætum deildarinnar síðustu þrjú ár og komist að minnsta kosti í undanúrslit síðustu tvö ár. Þetta tímabilið er sagan önnur, liðið er í fallsæti eftir 14 umferðir og staðan slæm.
Góðu fréttirnar fyrir Hauka eru hinsvegar þær að á þessum árum er sigurhlutfallið 100% í febrúar. Liðið hefur unnið alla 12 leiki sína á þessum tímabilum í febrúar og því virðist slæmur janúar hinsvegar boða gott framhald.
Mynd / Bára Dröfn
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson
Forsíðumynd / Hjalti Árnason – Haukar fagna sæti í úrslitaeinvíginu á síðasta tímabili.