Íslands- og bikarmeistarar KR sigruðu Skallagrím í 13. umferð Dominos deildar karla í kvöld. Fyrirfram var búist við þægilegum sigri KR en það varð ekki raunin. Skallagrímsmenn gáfu KR alvöru leik þar sem ekki var hægt að nefna sigurvegara fyrr en eftir framlengdan leik. 

 

Umfjöllun um helstu atriði leiksins má finna hér að neðan:

 

 

Gangur leiksins:

Jafnt var á öllum tölum framan af og var Sigtryggur Arnar með níu fyrstu stig Skallagríms. KR tók svo forystuna undir lok fyrsta leikhluta með því að keyra upp hraðann og virtust strax ætla að ná öruggri forystu. Fín vörn Skallagríms tókst hinsvegar að stöðva KR og gera erfitt fyrir. 

 

Hinu megin áttu KRingar mjög erfitt með Flenard Whitfield sem ásamt Sigtryggi hélt sókn gestanna uppi. Skallagrímur saxaði rækilega á muninn fyrir hálfleik og staðan þá 43-39. 

 

Skallagrímur komst svo yfir í byrjun seinni hálfleiks 54-55 en þá setti KR í gírinn og náði muninum í yfir 10 stig á augabragði. Saga leiksins er sú að Skallagrímur neitaði gjörsamlega að leggjast í gólfið og tókst að gera þetta að leik undir lokin. Þegar 14 sekúndur voru eftir jafnaði Sigtryggur Arnar leikinn með tveim vítaskotum. Jón Arnór átti svo möguleika á að vinna leikinn fyrir KR en skot hans geigaði og framlenging staðreynd. 

 

Það verður víst alltaf annað liðið að vinna og KR náði forystunni undir lok framlengingarinnar og knúðu fram erfiðan sigur gegn Skallagrím 99-92. 

 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Tölfræði leiksins er að mörgu leiti stórskemmtileg en Skallagrímur vann frákastabaráttuna 63-45 og tók þar að leiðandi fleiri skot en skotnýting KR var mun betri. Liðin tapa ekki mjög mörgum boltum í leiknum þrátt fyrir sterkan varnarleik en KR var með mun fleiri stoðsendingar í leiknum eða 33 gegn 17 sem segir ansi mikið um sóknarleik liðanna. 

 

Hetjan / Flensu leikurinn:

Pavel Ermolinski var frábær fyrir lið KR í kvöld. Hann hitti gríðarlega vel eða 10 af 15 skotum sínum og þar af 6/9 fyrir utan þriggja stiga línuna. Auk þess tók hann 15 stig og var steinsnar frá þrennu með 9 stoðsendingar. Auk þess fiskaði hann 10 villur og var ansi líkur sjálfum sér í kvöld. Brynjar Þór og Darri Hilmarsson voru drjúgir fyrir KR í kvöld. Brynjar setti risa stór skot ofan á ögurstundum og Darri var sterkur varnarlega og skilaði sínu sóknarlega. 

 

Hjá Skallagrím voru tveir menn sem stóðu uppúr. Fyrst er að nefna Sigtrygg Arnar Björnsson sem var með 37 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og hitti frábæralega. Hann sagði við Karfan.is eftir leik að hann hefði ekkert sofið nóttina áður vegna veikinda en hafi ákveðið að spila með rétt fyrir leik. Hann átti því sinn flensu leik í kvöld en Arnar var geggjaður í kvöld. Hann steig upp þegar mest á reyndi og tók mörg hálf galin skot sem hann bjó til sjálfur og þau rötuðu flest ofan í. Félagi hans Flenard Whitfield var þá með sjaldgæfa tölfræði þegar hann var einu frákasti frá 30-30 leik, en hann endaði með 30 stig og 29 fráköst. 

 

Kjarninn:

Íslandsmeistararnir voru hársbreidd frá því að tapa þriðja leiknum á heimavelli á tímabilinu en gerðu vel að sigla erfiðum sigri í kvöld. Heilt yfir átti KR fínan leik, varnarlega gekk þeim illa að stoppa Flenard og Sigtrygg en að öðru leyti var varnarleikurinn skynsamur og hélt fínt. Sóknarleikurinn bar þess merki að nokkuð vantar enn uppá takt og jafnvægi auk þess sem góður varnarleikur gestanna kom þeim í erfiða stöðu. Þolinmæði er dyggð sagði einhver og það átti við KR liðið í kvöld, þrátt fyrir að illa gengi að finna góð skot framan af sókn þá gekk boltinn vel sem endaði með körfu á endanum. 

 

Það er ótrúlega einfalt fyrir reynslulitla nýliða að mæta pínulitlir og hræddir á heimavöll íslandsmeistaranna gegn þessu stjórnuprídda liði KR. Nákvæmlega ekkert svoleiðis var uppá teningnum hjá Borgnesingum í kvöld. Skallagrímur bar ekki neina sérstaka virðingu fyrir KR og var skítsama þótt þeir væru að spila við stórstjörnur í íslenskum körfubolta. Einkennismerki liðsins í vetur hefur verið sterkur varnarleikur og sýndu þeir hann óspart í kvöld. Allir spiluðu fyrir liðið og skein leikgleðin greinilega af öllum. Leikmenn skildu allt eftir á gólfinu og geta gengið fullkomlega beinir í baki frá þessum leik.

 

Myndasafn frá Ómari Erni Ragnarssyni úr leiknum

Tölfræði leiksins:

 

KR-Skallagrímur 99-92 (26-18, 17-21, 31-25, 10-20, 15-8)

 

KR: Pavel Ermolinskij 31/15 fráköst/9 sto?sendingar, Brynjar Þór Björnsson 20/6 fráköst/5 sto?sendingar, Darri Hilmarsson 18/7 fráköst/5 sto?sendingar, Jón Arnór Stefánsson 15/6 fráköst/6 sto?sendingar, Cedrick Taylor Bowen 10/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 5, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Arnór Hermannsson 0, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0, Orri Hilmarsson 0, Þórir Gu?mundur Þorbjarnarson 0, Karvel Ágúst Schram 0. 

Skallagrímur: Sigtryggur Arnar Björnsson 37/5 fráköst, Flenard Whitfield 30/29 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 11, Daví? Ásgeirsson 4, Kristófer Gíslason 3/4 fráköst, Darrell Flake 2/6 fráköst, Kristján Örn Ómarsson 2, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 2, Bjarni Gu?mann Jónson 1, Sumarli?i Páll Sigurbergsson 0, Andrés Kristjánsson 0, Daví? Gu?mundsson 0. 

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

 

Mynd / Ómar Örn Ragnarsson